Á Sprengisandi í morgun var Guðjón Bragason, sviðsstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, spurður út í þessa stöðu og hvort kostnaður við tilfærslu þjónustunnar frá ríki til sveitarfélaga hafi verið vanfjármagnaður í ljósi níu milljarða króna halla.
Guðjón sagði að það væri ekki eins menn hafi ekki haft upplýsingarnar þegar af stað var farið.
„Það er talað um níu milljarða gat árið 2020 en ég er hræddur um að myndin sé enn svartari. Við höfum heyrt tölur á borð við tólf, þrettán milljarða árið 2021. Þetta er skuggalegt gat sem náttúrulega er ekki sjálfbært.“
Hann hafi þó ákveðnar væntingar um það muni takast að loka gatinu.
„En stærðin er slík að við erum að tala um að hér þyrfti sennilega að hækka útsvarshlutfall sveitarfélaga um eitt prósentustig og ef ríkið myndi koma á móti og lækka tekjuskattinn samsvarandi þá gætum við verið með frekar einfalda lausn á þessu en ég reikna nú frekar með að viðræður verði kannski aðeins flóknari.“
Í samkomulagi á milli ríkis og sveitarfélaga um tilfærslu þjónustunnar frá árinu 2010 var álagningarprósenta útsvars í lögum um tekjustofna sveitarfélaga hækkuð um 1,2%.
Guðjón segir að ræða verði um hagræðingu í þessu samhengi þrátt fyrir biðlista eftir bæði búsetuúrræðum og greiningum.

Foreldrar fatlaðra barna bugaðir og áhyggjufullir
Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður Öryrkjabandalags Íslands var einnig til viðtals hjá Kristjáni Kristjánssyni á Sprengisandi en hún hefur nýlokið fundaferð um landið þar sem fundað var með frambjóðendum um málefni fatlaðs fólks.
„Það sem brann á fólki sem mætti þarna á fundi voru húsnæðismál, aðgengismál, atvinnumál, þjónusta og ferðaþjónusta.“
Þuríður sagði að rauði þráðurinn á þessum fundum hafi verið foreldrar fatlaðra barna, sem hefðu áhyggjur af stöðunni. Börnin fengju ekki nægilega þjónustu.
„Ekki væri hugsað fyrir aðgengi í skólum, lítill stuðningur væri við fjölskylduna og mikil umönnunarskylda foreldra. Þeir voru bara dálítið bugaðir og höfðu áhyggjur af stöðu fatlaðra barna sinna og framtíð þeirra en líka af sjálfum sár. Fólk er nýkomið úr COVID og þessi hópur hefur þurft að vera mikið frá vinnu og vera heima með sínu langveika barni.“