Trausti skipar annað sætið á lista Sósíalistaflokksins en flokkurinn mældist með 6,3 prósent fylgi í síðustu könnun Maskínu. Það myndi skila einum manni inn í borgarstjórn.
Náð til óákveðinna kjósenda
„Á síðustu metrunum höfum við náð til fólks sem var óákveðið og ákvað að það vildi kjósa okkur,“ sagði Trausti í samtali við fréttastofu.
Hann segir flokksmeðlimi hafa ákveðnar hugmyndir um hvernig þau vilji hafa meirihlutann í borgarstjórn á næsta kjörtímabili.
„Við viljum vinstri meirihluta sem er með félagslegar áherslur. Ef að það eru flokkar tilbúnir að vinna með okkur að þeim málum þá er aldrei að vita.“
Búast við fleirum á næstunni
Flokkurinn er með kosningavöku á Ölver í Glæsibæ og var róleg stemning á staðnum þegar fréttastofa kíkti í heimsókn. Þau hafi þó ekki endilega búist við fleirum en eru mættir.
„Nei, það er náttúrulega Eurovision í gangi þannig að við búumst við því að mikið af fólki koma beint eftir það, það er forgangur hjá mörgum að klára það og sjá hvernig Systrum gengur í því. Það er stemning og byrjar mjög vel.“