Meirihluti Samfylkingar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna í borgarstjórn féll í kosningunum á laugardag. Framsóknarflokkurinn virðist í kjörstöðu með sína fjóra nýju borgarfulltrúa. Einar Þorsteinsson, oddviti flokksins, hitti oddvita nokkurra annarra flokka í dag.
Í viðtali í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld sagði Einar fundina hafa verið óformlegt spjall þar sem kannað var hvort málefnalegur flötur væri fyrir samstarfi.
Einar var spurður út í hvort hann stæði enn við ummæli sem hann lét falla í kappræðum á RÚV kvöldið fyrir kjördag þar sem hann útilokaði að undirgangast stefnu Samfylkingarinnar í meirihlutasamstarfi.
„Ef ég ætlaði mér að gera það hefði ég bara farið í framboð fyrir Samfylkinguna, þannig að það kemur ekki til greina,“ svaraði Einar.
Sló hann þó þann varnagla við flokkarnir séu margir með sömu málin á stefnuskrá sinni og oft greini þá ekki mikið um hvernig eigi að gera hlutina.
„Fyrst þurfum við bara að finna þá flokka sem okkar langar til að fara í formlegar viðræður við. Við erum ekki komin á þann stað,“ sagði Einar spurður út í hvenær formlegar meirihlutaviðræður gætu farið af stað.