Á síðastliðnum tólf mánuðum hefur vísitalan hækkað um 22,4 prósent en árstakturinn í mars var 22,2 prósent.
Seðlabankinn ákvað í fyrra að beita tveimur þjóðhagsvarúðartækjum í því skyni að koma böndum á fasteignaverð. Bankinn kynnti meðal annars nýjar reglur um hámark greiðslubyrðar.
Eftir síðustu vaxtaákvörðun Seðlabankans í maí, þar sem bankinn hækkaði vexti um 100 punkta upp í 3,75 prósent, kom fram í máli Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra að hann hefði orðið fyrir vonbrigðum með að hert skilyrði hefðu ekki enn haft tilætluð áhrif á fasteignaverð.
Verðbólga mældist 7,2 prósent í apríl og sem fyrr var hækkun húsnæðisverðs fyrirferðarmikil í mælingunni.
Seðlabankinn gerir ráð fyrir því að verðbólga haldi áfram að aukast og verði í kringum 8 prósent á bæði þriðja og fjórða ársfjórðungi. Þetta er veruleg hækkun frá síðustu verðbólguspá bankans í febrúar og ekki er talið að verðbólga verði komin undir 3 prósent fyrr en seint árið 2024.