Í tilkynningu frá fjölskyldu listakonunnar, sem hét Radhia Novat réttu nafni, segir að hún hafi andast í París í gær eftir að hafa glímt við veikindi.
BBC segir frá því að Miss. Tic sé talin ein af stofnendum stensillistar og er graffið hennar – oft myndir af torræðum og dularfullum konum – algeng sjón í frönsku höfuðborginni. Stensill er í raun skapalón úr málmi eða öðru efni með útskorinni mynd eða mynstri sem notaður er til að gera mörg eintök af sömu mynd.
Miss. Tic var handtekin árið 1997 í kjölfar kvartana um að hún væri að eyðileggja almannaeigur með myndum sínum. Þegar leið á myndlistarferilinn áttu myndir hennar eftir að verða sýndar á listasöfnum í Frakklandi og víða um heim. Á ferli sínum vann hún einnig með tískuframleiðendum á borð við Kenzo og Louis Vuitton.
Miss. Tic fæddist í Montmartre í París árið 1956 og var faðir hennar túnískur innflytjandi og móðir hennar frá Normandí.