„Þetta var fjölmennur fundur Framsóknarfólks í Reykjavík þar sem farið var yfir stöðu mála í borginni og þá stöðu sem upp er komin í óformlegum meirihlutaviðræðum. Þar voru skiptar skoðanir í umræðum en mikil bjartsýni varðandi framhaldið,“ segir Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins, í samtali við fréttastofu. Fundurinn hófst um klukkan sjö í kvöld og honum lauk um klukkan hálf tíu.
Einar segir fundinn hafa verið ætlaðan til upplýsingar og samræðu við grasrót flokksins, en engar ákvarðanir hafi verið teknar. Borgarstjórnarflokkur Framsóknar muni funda á morgun um næstu skref.
Bandalag Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar hefur lýst yfir áhuga á að ganga til formlegra meirihlutaviðræðna við Framsóknarflokkinn. Aðspurður hvort það sé næsta skref, segir Einar:
„Eftir þennan fund stendur það eftir að oddviti og borgarfulltrúar hafa skýrt umboð til þess að ganga til þeirra viðræðna sem þeir kjósa.“
Þær viðræður sem þið kjósið, eru það viðræður við bandalagið?
„Við höfum ekki tekið ákvörðun um það,“ segir Einar.