Fréttastofa Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar fylgist með þróun mála í Úkraínu í allan dag.
Helstu vendingar:
- Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti sagði í gær að Rússar væru búnir að sösla undir sig um fimmtung Úkraínu. Þá segir breska varnarmálaráðuneytið að þeir hafi náð yfirráðum yfir 90 prósentum af austurhéraðinu Luhansk.
- Enn er barist í borginni Severodonetsk, höfuðborg Luhansk, en þar eru 800 manns sagðir í felum undir Azot-efnaverksmiðjunni. Þeirra á meðal eru börn.
- Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, segir bandalagið í viðræðum við Tyrki um leiðir til að mæta áhyggjum þeirra af mögulegri aðild Svía og Finna. Stoltenberg mun funda með fulltrúum ríkjanna þriggja í Brussel á næstu dögum.
- Martin Griffiths, yfirmaður neyðaraðstoðar hjá Sameinuðu þjóðunum, er staddur í Moskvu til að ræða leiðir til að greiða fyrir útflutningi kornvöru og annarra matvæla frá Úkraínu.
- Borin hafa verið kennsl á tíu rússneska hermenn sem eru sakaðir um að hafa farið ránshendi um heimili í Bucha. Unnið er að rannsókn málsins.
