Fréttastofa Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar fylgist með þróun mála í Úkraínu í allan dag.
Helstu vendingar:
- Hundruðir manna flýja borgina Slóvíansk í austur Úkraínu daglega og tölur brottfluttra hafa næstum tvöfaldast í þessari viku. Loftárás sem drap þrjár manneskjur í borginni á þriðjudag hefur valdið þessum aukna fólksflótta, segir Vadym Lyakh, yfirmaður herstjórnar í Slóvíansk.
- Macky Sall, forseti Senegal og formaður Afríkusambandsins, bað Vladimír Pútín Rússlandsforseta að taka tillit til þeirra áhrifa sem matarskortur, orsakaður af átökunum í Úkraínu, hefur haft á Afríku.
- Enn er barist í borginni Severodonetsk, höfuðborg Luhansk, en þar eru 800 manns sagðir í felum undir Azot-efnaverksmiðjunni. Þeirra á meðal eru börn.
- Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, segir bandalagið í viðræðum við Tyrki um leiðir til að mæta áhyggjum þeirra af mögulegri aðild Svía og Finna. Stoltenberg mun funda með fulltrúum ríkjanna þriggja í Brussel á næstu dögum.
- Martin Griffiths, yfirmaður neyðaraðstoðar hjá Sameinuðu þjóðunum, er staddur í Moskvu til að ræða leiðir til að greiða fyrir útflutningi kornvöru og annarra matvæla frá Úkraínu.
