Fréttastofa Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar fylgist með þróun mála í Úkraínu.
Helstu vendingar:
- Dmitry Medvedev, fyrrum forseti Rússlands, sagði í dag að hann ætlaði að gera allt sem hann gæti til að þeir sem hata Rússland hverfi. Í sömu skilaboðum kallaði hann alla sem hata Rússland „úrkynjaða bastarða“.
- Rússneska þingið hefur kosið að ganga úr mannréttindadómstól Evrópu. Samkvæmt samþykkt rússneska þingsins munu allir dómar varðandi Rússland sem voru afgreiddir eftir 16. mars falla niður.
- Anders Fogh Rasmussen, fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur og framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, sagði í viðtali í gær að bandalagið hefði ofmetið hernaðarmátt Rússlands en vanmetið grimmd og metnað Vladimir Pútín Rússlandsforseta.
- Bardagar standa enn yfir í borginni Severodonetsk í austurhluta Úkraínu. Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti segir barist á götum úti og að þrátt fyrir að Rússar séu fleiri á svæðinu eigi Úkraínumenn enn möguleika á því að verja borgina.
- Selenskí segist telja Rússa stefna að því að ná borginni Zaporizhzhia en Severodonetsk og Lysychansk séu nú „dauðar borgir“, það er að segja búið að leggja þær í rúst.
- Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, segir Rússa munu bregðast við fyrirheitum Vesturlanda um langdræg vopn til handa Úkraínu með því að hrekja úkraínskar hersveitir lengra frá landamærum Rússlands.
- Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir áreiðanlegar heimildir fyrir því að Rússar séu að stela kornbirgðum í Úkraínu og selja.
