Frá áramótum hafa brottfarir Íslendinga mælst um 200 þúsund talsins eða um og yfir 80 prósent af því sem þær mældust á sama tímabili árin 2018 og 2019. Enn er þó nokkuð langt í land að ná þeim fjölda brottfara erlendra farþega sem var fyrir kórónaveirufaraldurinn en þær voru 793 þúsund á tímabilinu janúar til maí árið 2018 eða um 334 þúsund fleiri en í ár.
Brottfarir erlendra farþega í maí voru um 68 prósent af því sem þær voru árið 2018 þegar mest var og um 89 prósent af því sem þær voru í maímánuði 2019.
Bandaríkjamenn fjölmennastir
Flestar brottfarir erlendra ferðamanna í maí voru tilkomnar vegna Bandaríkjamanna, um 26 þúsund talsins eða 23 prósent af heild. Bandaríkjamenn hafa verið fjölmennasta þjóðernið um árabil en á eftir þeim koma Bretar sem voru um 9500 talsins eða 8,5 prósent af brottförum erlendra ferðamanna. Á eftir þessum þjóðum koma Þjóðverjar, Hollendingar, Frakkar, Pólverjar og Danir með um fimm til sjö prósent af heildarfjölda brottfara.