Í frétt NRK segir að Hesvik hafi verið búsettur í Bærum og hafi verið úti á lífinu með félaga sínum í tilefni af Pride-göngunni sem átti að fara fram í norsku höfuðborginni á laugardag.
Um Isachsen segir að hann hafi verið að skemmta sér með vinum sínum á staðnum Per på Hjørnet þegar árásin hófst. Í tilkynningu lögreglu segir að fjölskylda Isachsen lýsi honum sem elskandi föður sem verði sárt saknað.
Dómsmálaráðherra Noregs, Emilie Enger Mehl, sagði í morgun að rannsókn verði gerð á viðbrögðum norsku lögreglunnar, öryggislögreglunnar og leyniþjónustunnar í tengslum við árásina. Árásarmaðurinn hafði verið á skrám lögreglunnar síðan 2015, en síðast fyrir mánuði síðan var það metið sem svo að af honum stafaði ekki ógn.
Árásin hófst fyrir utan bar sem er vinsæll á meðal hinsegin fólks og er hún rannsökuð sem hryðjuverk. Auk hinna tveggja sem létust særðust rúmlega tuttugu, þar af tíu alvarlega, en enginn þeirra er þó talinn í lífshættu.