Innlent

Heiða Björg býður sig fram til for­mennsku í Sam­bandi ís­lenskra sveitar­fé­laga

Árni Sæberg skrifar
Heiða Björg vill verða næsti formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Heiða Björg vill verða næsti formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Vísir/Vilhelm

Heiða Björg Hilmisdóttir hefur tilkynnt framboð sitt til formennsku í Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Hún hefur verið varaformaður sambandsins síðastliðin fjögur ár.

Heiða Björg er jafnframt borgarfulltrúi og varaformaður Samfylkingarinnar og hún segist vita að reynsla hennar og þekking geti nýst henni vel í starfi formanns. Hún greinir frá framboðinu á Facebook-síðu sinni.

Hún segist vilja halda áfram að nútímavæða sambandið og opna það sem samráðs- og samstarfsvettvang sveitarstjórnarfólks.

Formaður sambandsins þurfi að tala fyrir þeirri framþróun sem við viljum sjá í íslensku samfélagi, þar séu sveitarfélögin lykilaðilar. „Við þurfum að auka samstarf við landshlutasamtök, þjappa saman landsbyggð og höfuðborg þvi okkar markmið falla vel saman,“ segir Heiða Björg.

Þá segir hún að klára þurfi tekjuskiptingu svo unnt sé að veita þá þjónustu sem sveitarfélög vilja veita.

„Þannig byggjum við upp öfluga og spennandi byggð um allt land, húsnæði, atvinnu, menntun og velferð,“ segir Heiða Björg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×