Í umfjöllun um áform um lagasetningu í samráðsgáttinni er áréttað að ekki sé um að ræða endurflutt frumvarp um afglæpavæðingu neysluskammta heldur sé áætlað að leggja fram breytt frumvarp sem byggist á vinnu starfshóps sem Willum Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra skipaði í febrúar síðastliðnum.
Hópinn skipa fulltrúar sem endurspegla samfélagið í þeim tilgangi að fá uppbyggilega og gagnrýna umfjöllun um verkefnið og ná fram niðurstöðu sem verði ásættanleg fyrir samfélagið í heild, að því er segir í umfjölluninni.
Hópinum hefur verið falið að skilgreina dagskammt eða neysluskammt og er áætlað að setja þá skilgreiningu í reglugerð sem lögð verði fram með endurbættu frumvarpi. Hópurinn mun að óbreyttu skila niðurstöðu sinni fyrir næsta vetur.
Hópurinn hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að heiti fyrra frumvarps, afglæpavæðing neysluskammta, endurspegli ekki nægilega vel hlutverk starfshópsins.
„Á þessari stundu er því lagt upp með að nefna frumvarpið afnám refsingar, enda tilgangurinn að afnema refsingu veikasta hópsins þegar þeir einstaklingar eru með í vörslu sinni dagskammt eða neysluskammt tiltekinna efna í tilteknu magni,“ segir í umfjölluninni.