Lífið

Segir gler­augun ekki keypt á AliExpress

Bjarki Sigurðsson skrifar
Lína með gleraugu Moxen og skjáskot af vefsíðu AliExpress af svipuðum gleraugum.
Lína með gleraugu Moxen og skjáskot af vefsíðu AliExpress af svipuðum gleraugum. Skjáskot/Vísir

Lína Birgitta Sigurðardóttir þvertekur fyrir það að gleraugun í línu hennar og Guðmundar Birkis Pálmasonar, betur þekktur sem Gummi kíró, séu pöntuð af AliExpress. Hún viðurkennir þó að gleraugun sem eru þar til sölu séu ansi lík þeirra gleraugum.

Í gær birtist færsla á Twitter með skjáskotum af gleraugum úr nýrri sólgleraugnalínu Línu og Gumma, sem ber heitið Moxen Eyewear, og myndum af sólgleraugum sem eru til sölu á vefsíðunni AliExpress.

Gleraugun eru ansi lík, ef ekki bara alveg eins. Önnur gleraugun á vefsíðu AliExpress kosta 1.606 krónur með sendingarkostnaði, og hin gleraugun einungis ellefu krónur með sendingarkostnaði.

Í samtali við fréttastofu segir Lína Birgitta að gleraugu Moxen séu ekki pöntuð á Ali. Hún segir að þau panti gleraugun frá stórum framleiðanda í Kína sem framleiðir fyrir þekktar verslanir um allan heim.

„Ég er búin að vera í viðskiptum í níu ár og maður er búinn að heyra svo oft eitthvað sem tengist AliExpress þegar einhver er að byrja með eitthvað. Maður er orðinn svo ónæmur. Ég væri ekki að fara að panta eitthvað af AliExpress,“ segir Lína.

Senda hugmyndir á framleiðandann

Hún segir að hún og Gummi velji stíla, ramma og linsur fyrir gleraugun sem þeim finnst passa Moxen-línunni.

„Svo fylgjumst við með götutískunni og erum alltaf að skoða myndir af fólki sem við vistum og sendum á framleiðandann. Svo fáum við mismunandi „catalogues“ frá framleiðandanum sem hann er að framleiða nú þegar og þá getum við valið tegundir sem láta okkur hugsa: „Ú, þetta er Moxen“,“ segir Lína.

Hún viðurkennir þó að gleraugun á Ali séu ansi lík gleraugunum í Moxen-línunni. Það sé þó hægt að kaupa eftirlíkingar af öllu á AliExpress.

„Þetta eru bara týpur sem eru ógeðslega vinsælar. Ég votta hundrað prósent fyrir það, ég myndi ekki panta af AliExpress. Mér finnst svo leiðinlegt að ég þurfi að fara að verja mig fyrir það.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×