Viðskipti innlent

Hálfur milljarður í hagnað á öðrum árs­fjórðungi

Bjarki Sigurðsson skrifar
Heildartekjur félagsins námu 42,5 milljörðum króna.
Heildartekjur félagsins námu 42,5 milljörðum króna. Vísir/Vilhelm

Icelandair skilar um hálfum milljarði í hagnað á öðrum ársfjórðungi 2022. Lausafjárstaða félagsins hefur aldrei verið sterkari og nam 61,6 milljörðum króna í lok júní.

Þetta kemur fram í uppgjöri Icelandair sem birt var í Kauphöllinni rétt í þessu.

Heildartekjur flugfélagsins námu 42,5 milljörðum króna sem er aukning um 32,5 milljarða króna frá árinu á undan. Sætanýting félagsins hefur farið úr 47,3 prósentum í 78,5 prósent á milli ára.

Hátt í eitt þúsund starfsmenn voru ráðnir til starfa hjá Icelandair á þessum öðrum ársfjórðungi og var samningur um tvær Boeing 737 Max flugvélar undirritaður ásamt viljayfirlýsingu um fjórar vélar til viðbótar.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.Vísir/Vilhelm

Að skila hagnaði á öðrum ársfjórðungi er stór áfangi á vegferð okkar að koma félaginu í arðbæran rekstur. Með því að nýta sveigjanleika leiðakerfisins og þá sterku innviði sem við búum yfir höfum við aukið flugframboð hratt til að mæta mikilli eftirspurn og á sama tíma náð að bæta sætanýtingu og framlegð, þrátt fyrir að eldsneytisverð hafi meira en tvöfaldast á síðastliðnum 12 mánuðum. Slíkur viðsnúningur gerist ekki af sjálfu sér heldur er árangur þrotlausrar vinnu okkar reynslumikla starfsfólks sem hefur staðið sig frábærlega í mjög krefjandi aðstæðum. Ég vil þakka starfsfólkinu okkar þennan góða árangur,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.

Hann segir flugfélagið hafa staðið frammi fyrir ýmsum áskorunum á fjórðungnum en líkt og Vísir hefur greint frá hafa meðal annars verið miklar tafir á flugvöllum vegna manneklu. Bogi segir að Icelandair sé hins vegar í góðri stöðu til að bregðast við slíkum röskunum.

„Horfurnar fyrir þriðja ársfjórðung eru góðar og bókunarstaða sterk. Við gerum ráð fyrir að flugáætlun okkar í þriðja ársfjórðungi muni ná 83 prósent af framboði félagsins á sama tíma 2019 og um 90 prósent af framboðinu 2019 í fjórða ársfjórðungi, þrátt fyrir að óvissa ríki enn í rekstrarumhverfinu. Það er ánægjulegt að sjá mikla eftirspurn eftir ferðum til Íslands og að vægi tengifarþega sé jafnframt að aukast,“ segir Bogi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×