Aron Elís byrjaði á varamannabekk OB sem heimsótti Randers. Bashkim Kadrii kom OB þar yfir eftir hálftímaleik áður en Charly Nouck Horneman tvöfaldaði forskotið rétt fyrir hálfleik.
Staðan var enn 2-0 þegar Aron Elís kom inn af bekknum á 70. mínútu en aðeins sjö mínútum síðar var hún orðin 2-2 eftir tvö mörk Randers á 75. og 77. mínútu. Engin draumainnkoma hjá Aroni Elís, sem þurfti ásamt liðsfélögum sínum, að horfa á eftir tveimur stigum.
OB er með eitt stig eftir tvo leiki í deildinni en Randers tvö.
Mikael Anderson spilaði þá fyrstu 70 mínútur leiksins á miðjunni hjá AGF sem vann 3-1 heimasigur á Viborg og er þar með komið með sín fyrstu stig í deildinni. Sigurd Haugen, Mads Emil Madsen og Patrick Mortensen skoruðu mörk AGF.