Nýliðarnir í Horsens gerðu sér lítið fyrir og unnu 1-0 sigur á meisturum FCK í fyrstu umferð og gerðu slíkt hið sama gegn Lyngby í kvöld en Anders Jacobsen skoraði eina mark leiksins á 21. mínútu.
Aron Sigurðarson var í byrjunarliði Horsens og lék í 71 mínútu áður en honum var skipt af velli. Sævar Atli Magnússon byrjaði á varamannabekk Lyngby en fékk að leika síðustu rúmu tíu mínúturnar eftir að hafa komið inn á sem varamaður á 81. mínútu.
Eftir sigurinn er Horsens ásamt Nordsjælland á toppi dönsku úrvalsdeildarinnar með sex stig eftir tvo leiki. Lyngby er hins vegar með eitt stig í 9. sæti eftir jafn marga leiki, einu stigi frá botnsætinu.