Handbolti

„Loksins þegar við sáum fram á að geta teflt honum fram í góðu formi þá gerist þetta“

Sindri Sverrisson skrifar
Sveinn Andri Sveinsson hefur spilað sinn síðasta leik fyrir Aftureldingu en hann lék með liðinu í tvö tímabil.
Sveinn Andri Sveinsson hefur spilað sinn síðasta leik fyrir Aftureldingu en hann lék með liðinu í tvö tímabil. vísir/hulda margrét

Sveinn Andri Sveinsson hefur ákveðið að yfirgefa Aftureldingu til að spila með liði Empor Rostock í þýsku 2. deildinni, við litla kátínu Gunnars Magnússonar þjálfara Aftureldingar.

Þetta kemur fram á vef handbolta.is í dag þar sem Gunnar staðfestir að Sveinn Andri sé óvænt á förum til Empor Rostock.

Sveinn Andri, sem er 23 ára leikstjórnandi, kom til Aftureldingar frá ÍR fyrir tveimur árum en náði ekki að blómstra eins og hann hefði kosið enda settu meiðsli stórt strik í reikninginn. Hann skoraði aðeins 24 mörk í 15 leikjum á síðustu leiktíð.

„Loksins þegar við sáum fram á að geta teflt honum fram í góðu formi þá gerist þetta,“ segir Gunnar við handbolta.is og er bersýnilega óánægður með þá ákvörðun Sveins Andra að yfirgefa Mosfellsbæinn á þessum tímapunkti.

Gunnar segir að um mikil vonbrigði sé að ræða, ekki síst vegna þess hve stutt sé í að Íslandsmótið hefjist. Afturelding tekur á móti Val í fyrstu umferð eftir sléttan mánuð.

Empor Rostock hafnaði í 15. sæti af 20 liðum í þýsku 2. deildinni í handbolta á síðustu leiktíð. Liðið byrjar nýja leiktíð á leik við Essen á útivelli 2. september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×