Innherji

Ás­geir eini seðla­banka­stjórinn sem fékk hæstu ein­kunn Global Finance

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Ásgeir Jónsson tók við starfi seðlabankastjóra í september 2019.
Ásgeir Jónsson tók við starfi seðlabankastjóra í september 2019. Vísir/Vilhelm

Fjármálatímaritið Global Finance hefur gefið Ásgeiri Jónssyni hæstu mögulegu einkunn fyrir frammistöðu sína sem seðlabankastjóri. Ásgeir er eini seðlabankastjórinn á heimsvísu sem fékk einkunnina A+ samkvæmt mati Global Finance sem tímaritið hefur birt árlega frá árinu 1994.

Tímaritið gefur seðlabankastjórum einkunnir frá A til F og byggist einkunnagjöfin á því hversu vel þeim hefur tekist til við að koma böndum á verðbólgu. Einnig er horft til árangurs seðlabanka í vaxtastýringu, stuðla að öflugum hagvexti og í því að viðhalda gengisstöðuleika.

Einkunnin A þýðir að tímaritið telji viðkomandi seðlabankastjóra hafa skarað fram úr en einkunnin F að peningastefnan hafi mislukkast að öllu leyti. Einkunnagjöfin nær til seðlabanka í alls 96 löndum og samkvæmt mati Global Finance fengu 10 seðlabankastjórar einkunnina A og aðrir tíu einkunnina A-.

„Þegar ótti um heimskreppu grípur um sig er undir seðlabankastjórum komið að hrinda í framkvæmd aðgerðum til að koma í veg fyrir að slíkt gerist,“ er haft eftir Joseph Giarraputo, stofnanda og ritstjóra Global Finance.

Ásgeir tók við starfi seðlabankastjóra í september 2019 og stóðu vextir þá í 3,5 prósentum. Hann hefur klifið upp listann síðan þá en Global Finance gaf honum einkunnina A- árið 2020 og A árið 2021.

Seðlabankinn lækkaði vexti niður í 0,75 prósent á meðan kórónukreppan gekk yfir en frá vorinu 2021 hafa vextir hækkað upp í 4,75 prósent. Búist er við frekari vaxtahækkunum á vaxtaákvörðunarfundi peningastefnunefndar á miðvikudaginn í næstu viku.

Þegar ótti um heimskreppu grípur um sig er undir seðlabankastjórum komið að hrinda í framkvæmd aðgerðum til að koma í veg fyrir að slíkt gerist.

Greinendur og Seðlabankinn spá því að hagvöxtur á Íslandi á þessu ári verði um fimm prósent sem er talsvert meira en í okkar helstu viðskiptalöndum. Tólf mánaða verðbólgan er 9,9 prósent en sé litið til mæl­ingar á sam­ræmdri vísi­tölu neyslu­verðs, sem reiknuð er af EES-ríkj­un­um mánaðarlega, þá er Ísland með aðra minnstu verðbólg­una í Evrópu, eða 5,4 prósent, á eftir Sviss, en þar verðbólgan 3,2 prósent.


Tengdar fréttir

Erum að vinna í haginn fyrir kjarasamninga, segir seðlabankastjóri

„Við höfum tækin sem þarf til að ná niður verðbólgunni og við getum beitt þeim af fullum þunga. Ef við þurfum að gera það í andstöðu við aðila vinnumarkaðarins af því að þeir ætla sér að auka enn á verðbólguna með því að hækka launin meira en hagkerfið þolir þá þýðir það einungis að Seðlabankinn þarf að keyra hagkerfið niður í kreppu,“ segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri í viðtali við Innherja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×