Tímaritið gefur seðlabankastjórum einkunnir frá A til F og byggist einkunnagjöfin á því hversu vel þeim hefur tekist til við að koma böndum á verðbólgu. Einnig er horft til árangurs seðlabanka í vaxtastýringu, stuðla að öflugum hagvexti og í því að viðhalda gengisstöðuleika.
Einkunnin A þýðir að tímaritið telji viðkomandi seðlabankastjóra hafa skarað fram úr en einkunnin F að peningastefnan hafi mislukkast að öllu leyti. Einkunnagjöfin nær til seðlabanka í alls 96 löndum og samkvæmt mati Global Finance fengu 10 seðlabankastjórar einkunnina A og aðrir tíu einkunnina A-.
„Þegar ótti um heimskreppu grípur um sig er undir seðlabankastjórum komið að hrinda í framkvæmd aðgerðum til að koma í veg fyrir að slíkt gerist,“ er haft eftir Joseph Giarraputo, stofnanda og ritstjóra Global Finance.
Ásgeir tók við starfi seðlabankastjóra í september 2019 og stóðu vextir þá í 3,5 prósentum. Hann hefur klifið upp listann síðan þá en Global Finance gaf honum einkunnina A- árið 2020 og A árið 2021.
Seðlabankinn lækkaði vexti niður í 0,75 prósent á meðan kórónukreppan gekk yfir en frá vorinu 2021 hafa vextir hækkað upp í 4,75 prósent. Búist er við frekari vaxtahækkunum á vaxtaákvörðunarfundi peningastefnunefndar á miðvikudaginn í næstu viku.
Þegar ótti um heimskreppu grípur um sig er undir seðlabankastjórum komið að hrinda í framkvæmd aðgerðum til að koma í veg fyrir að slíkt gerist.
Greinendur og Seðlabankinn spá því að hagvöxtur á Íslandi á þessu ári verði um fimm prósent sem er talsvert meira en í okkar helstu viðskiptalöndum. Tólf mánaða verðbólgan er 9,9 prósent en sé litið til mælingar á samræmdri vísitölu neysluverðs, sem reiknuð er af EES-ríkjunum mánaðarlega, þá er Ísland með aðra minnstu verðbólguna í Evrópu, eða 5,4 prósent, á eftir Sviss, en þar verðbólgan 3,2 prósent.