Víkurfréttir greindu fyrst frá atvikinu sem varð seinnipart miðvikudags.
Svo virðist sem að hætt hafi verið skyndilega við lendingu TF-ICB, Boeing 737 MAX 9, sem var sem fyrr segir á leið frá Munchen í Þýskalandi, þar sem önnur flugvél Icelandair, TF-FIA, Boeing 757, á leið til Mílanó á Ítalíu, hafi verið á flugbrautinni sem TF-ICB var að koma inn til lendingar á.
Rannsókn á byrjunarstigi
Í samtali við Vísi staðfestir Þorkell Ágústsson, rannsóknarstjóri flugsviðs Rannsóknarnefndar flugslysa að nefndinni hafi borist tilkynning vegna atviksins, skömmu eftir að það átti sér stað.
Vinna við upplýsingaöflun vegna atviksins sé hafin, ótímabært sé hins vegar að segja til um alvarleika atviksins enda þurfi að vinna úr þeim upplýsingum sem aflað verður.
Sjá má á vef Flightradar 24, vefsíðu sem fylgist með flugumferð, að TF-ICB, sem var að koma inn til lendingar, hafi nokkrum mínútum fyrir 16 á miðvikudaginn hætt skyndilega við lendingu á Keflavíkurflugvelli.

Samkvæmt skráningu flugferils flugvélarinnar á Flightradar24 má sjá að hætt hafi verið við lendingu í um 425 feta hæð, sem er um 130 metrar.
Sjá má á skráningu flugferils TF-FIA á Flightradar24 að á um það bil sama tíma, klukkan 15.54, og hætt var við lendingu TF-ICB, var TF-FIA inn á eða að koma inn á flugbrautina sem ætlunin var að lenda TF-ICB á.

TF-FIA tók af stað áleiðis til Mílanó en TF-ICB tók aukahring og lenti á annarri flugbraut Keflavíkurflugvallar, nokkrum mínútum síðar.
Á vef Víkurfrétta segir að veðuraðstæður hafi ekki verið góðar þegar atvikið átti sér stað.