Erlent

Kona hand­tekin eftir að lík barna fundust í ferða­töskum

Atli Ísleifsson skrifar
Konan var handtekin í borginni Ulsan í suðausturhluta Suður-Kóreu eftir margra vikna leit lögreglu.
Konan var handtekin í borginni Ulsan í suðausturhluta Suður-Kóreu eftir margra vikna leit lögreglu. AP

Lögregla í Suður-Kóreu hefur handtekið konu sem sökuð er um að hafa myrt tvö börn sín sem fundust í ferðatösku á Nýja-Sjálandi í síðasta mánuði.

Málið hefur skekið nýsjálensku þjóðina, en líkin fundust af fjölskyldu sem hafði keypt töskurnar á uppboði í borginni Auckland á Nýja-Sjálandi. Töskurnar höfðu verið læstar í geymslu í nokkur ár þegar fjölskyldan keypti þær á uppboði á netinu.

Rannsókn lögreglu leiddi í ljós að um væri að ræða lík af börnum frá Suður-Kóreu sem höfðu verið sjö og tíu ára þegar þau voru myrt. Leit hófst þó að móður barnanna í Suður-Kóreu sem hefur nú verið handtekin í borginni Ulsan í suðausturhluta landsins.

Yfirvöld á Nýja-Sjálandi hafa farið fram á að konan, sem er 42 ára, verði framseld til Nýja-Sjálands til að hægt verði að rétta yfir konunni.

Lögregluyfirvöld í Auckland og í Suður-Kóreu hafa unnið náið að rannsókn landsins, en talið er að konan, sem er nýsjálenskur ríkisborgari af suðurkóreskum uppruna, hafi flúið til Suður-Kóreu í kjölfar dauða barnanna árið 2018.

Nýsjálenskir fjölmiðlar segja fjölskylduna hafa búið í Auckland í nokkur ár og að faðir barnanna hafi látist af völdum krabbameins áður en konan myrti börnin. Þá segir að afar og ömmur barnanna búi enn í Nýja-Sjálandi.


Tengdar fréttir

Búið að bera kennsl á börnin í ferða­töskunum

Lögreglunni á Nýja-Sjálandi hefur tekist að bera kennsl á lík tveggja barna sem fundust í ferðatöskum í borginni Auckland fyrir tveimur vikum síðan. Búið er að láta nánustu fjölskyldu barnanna vita af málinu og hafa þau óskað eftir því að nöfn þeirra verði ekki gerð opinber.

Telja sig hafa fundið móður barnanna í ferða­töskunum

Lögreglan í Seúl í Suður-Kóreu telur sig hafa fundið móður barnanna sem fundust látin í ferðatöskum í borginni Auckland í Nýja-Sjálandi í síðustu viku. Við krufningu kom í ljós að börnin voru á aldursbilinu fimm til tíu ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×