Veður

Rigning með köflum og á­fram hlýtt

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti á landinu verður á bilinu tíu til átján stig.
Hiti á landinu verður á bilinu tíu til átján stig. Vísir/Vilhelm

Veðurstofan gerir ráð fyrir suðlægri átt í dag, yfirleitt á bilinu þrír til átta metrar á sekúndu, en að tíu metrum á sekúndu við suður- og vesturströndina. Má búst við rigningu með köflum, en bjartviðri austanlands fram á kvöld.

Á vef Veðurstofunnar segir að áfram sé hlýtt á landinu, tíu til átján stig í dag, hlýjast á Norðaustur- og Austurlandi.

„Í nótt dregur úr vindi og á morgun verður hæg breytileg átt og skúrir á víð og dreif en samfeld rigning suðaustan- og austantil er lítil lægðarbóla fer norður með austurströndinni. Heldur kólnar þó og hiti verður á bilinu 7 til 13 stig,“ segir í hugleiðingu.

Spákortið fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag: Suðvestlæg eða breytileg átt 3-8 m/s. Rigning austantil framan af degi, en annars skúrir á víð og dreif, einkum síðdegis sunnanlands. Hiti 8 til 12 stig.

Á fimmtudag: Vestlæg átt, 5-13 m/s, hvassast syðst. Skúrir, en þurrt og bjart suðaustanlands. Hiti 5 til 12 stig, mildast á Suðausturlandi.

Á föstudag (haustjafndægur): Suðvestan 5-13 m/s, hvassast norðvestantil. Skýjað en þurrt að kalla vestanlands, en bjart um austanvert landið. Hiti 7 til 12 stig.

Á laugardag: Vaxandi suðvestanátt með talsverðri rigningu vestantil og hlýnandi veðri.

Á sunnudag: Gengur í norðanátt með kólnandi veðri. Skúrir, en slydda norðantil.

Á mánudag: Útlit fyrir norðanátt, bjartviðri og svalt veður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×