Alsírinn er kallaður Tayeb B. í greininni en hann er sagður hafa haft upplýsingar og sönnunargögn undir höndum sem kæmu sér illa fyrir Al-Khelaifi. Þær sýni að hann hafi átt þátt í því að spilla kosningum um mótshaldara HM 2022, sem FIFA kaus um árið 2010. Mótið fer fram í Katar en ítrekaðar ásakanir hafa komið fram frá því að kosningin fór fram að þar væri ekki allt með felldu.
Tayeb þessi var handtekinn í Katar þann 13. janúar 2020. Samkvæmt frétt Libération þurfti hann að dúsa í varðhaldi, sæta hótunum og ofbeldi í níu mánuði. Hann var í varðhaldi allt þar til hann féllst á að skila gögnunum til lögfræðinga Al-Khelaifis, og skrifa undir trúnaðarsamning.
Þá segir í greininni að handtaka Tayebs hafi eingöngu verið drifin áfram „vegna skipana emírsins í Katar“.