Handbolti

Samherji Viggós kom út úr skápnum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lucas Krzikalla (lengst til hægri) steig stórt skref um helgina.
Lucas Krzikalla (lengst til hægri) steig stórt skref um helgina. getty/Jan-Philipp Burmann

Lucas Krzikalla, leikmaður Leipzig í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta, greindi frá því um helgina að hann væri samkynhneigður.

„Ég hef hugsað um þetta í ár: af hverju ekki að taka skrefið og segja að þú sért hommi? Hversu lengi þarf ég að viðhalda þessari lygi og fyrir hvern?“ sagði Krzikalla í viðtali við Welt am Sonntag.

Krzikalla er 28 ára hægri hornamaður. Hann hefur leikið með Leipzig allan sinn feril. Á þessu tímabili hefur hann skorað fjögur mörk í sex deildarleikjum.

Krzikalla ku vera sá fyrsti í liðsíþrótt í Þýskalandi sem kemur út úr skápnum meðan hann er enn að spila. Nokkrir hafa greint frá samkynhneigð sinni eftir að ferlinum lýkur, meðal annars fótboltamaðurinn Thomas Hitzelsberger.

Viggó gekk í raðir Leipzig frá Stuttgart fyrir þetta tímabil. Hann var áður á mála hjá Leipzig fyrir þremur árum. Seltirningurinn er markahæsti leikmaður Leipzig á tímabilinu með 25 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×