Cannon eignaðist soninn Rise Messiah með fyrirsætunni Brittany Bell þann 23. september síðastliðinn. Fyrir eiga þau Cannon og Bell börnin Golden Sagon og Powerful Queen fædd 2017 og 2020.
„Þetta var sennilega erfiðasta fæðing sem ég hef orðið vitni að,“ skrifaði sjónvarpsmaðurinn á Instagram síðu sinni og þá er mikið sagt. Fæðingin tók tvo sólarhringa og segir Cannon að á tímapunkti hafi hann óttast um líf barnsmóður sinnar.
Ekki einnar konu maður
September var viðburðaríkur mánuður í lífi Cannons. Níu dögum fyrir fæðingu Rise eignaðist hann dóttur með fyrirsætunni LaNisha Cole. Hlaut hún nafnið Onyx og er hún þeirra fyrsta barn saman.
The Masked Singer þáttastjórnandinn hefur ekki farið leynt með það að hann sé ekki einnar konu maður. Hefur hann meðal annars sagt að honum finnist einkvæni vera sjálfselska og tengir hann það við eignarhald. Hann var þó giftur söngkonunni Mariah Carey í átta ár og eiga þau tvö börn saman.
Sjá: Telur einkvæni vera óheilbrigt
Eftir skilnað Cannons og Carey árið 2016 hefur hann eignast átta börn með fimm konum.
Fjögur börn á sama aldursári
„Ég tek fulla ábyrgð. Ef ég stunda óvarið kynlíf með konu þá er mögulegt að við munum eignast barn. Ég ber það mikla virðingu fyrir sjálfum mér að ef ég er kominn á þann stað með konu að taka af mér smokkinn, þá er það af því ég hef hugsað með mér að hún geti orðið barnsmóðir mín,“ sagði Cannon hlaðvarpinu The Language of Love fyrir skömmu.
Árið 2022 ætlar að verða stórt í lífi Cannons. Hann eignaðist son nú í sumar með fyrirsætunni Bre Tiesi. Þá á hann von á sínu ellefta barni með áhrifavaldinum Abby De La Rosa síðar á árinu. Sjónvarpsmaðurinn mun því eiga fjögur börn með fjórum konum, öll fædd á sama árinu.