Sport

Tíu hlauparar eftir í Elliðaárdal

Atli Arason skrifar
Mari Järsk er ein af tíu keppendum í íslenska liðinu sem eru ennþá að hlaupa.
Mari Järsk er ein af tíu keppendum í íslenska liðinu sem eru ennþá að hlaupa.

Það eru tíu keppendur eftir í íslenska landsliðinu sem keppir í bakgarðshlaupinu í Elliðaárdal en fimm keppendur heltust úr lestinni eftir nóttina og nú í morgunsárið.

Hildur Aðalsteinsdóttir var fyrst til þess að draga sig úr leik eftir kalda og erfiða nótt. Hildur hljóp alls 17 hringi eða rúma 112 km á 16 klukkustundum og 55 mínútum. Kristján Skúli Skúlason náði einum hring betur en Kristján hljóp 18 hringi, tæpan 121 km, á 17 klukkustundum og 53 mínútum.

Jón Gunnar Gunnarson og Kolbrún Ósk Jónsdóttir tókst að klára 19 hringi, u.þ.b. 127 km, á tæpum 19 klukkustundum. 

Jón Gunnar hefur átt hraðasta hringinn til þessa en Jón hljóp 9. hringinn á 33 mínútum og 54 sekúndum.

Nú í morgunsárið, eftir hring númer 21, þurfti Sigurjón Ernir Sturluson að hætta keppni. Sigurjón hljóp alls 140 km á tæpri 21 klukkustund.

Eftir standa 10 hlauparar sem ræstu 22. hringinn, þau Birgir Sævarsson, Örvar Steingrímsson, Flóki Halldórsson, Adam Komorowski, Marlena Radziszewska, Mari Järsk, Þorleifur Þorleifsson, Friðrik Benediktsson, Rúna Rut Ragnarsdóttir og Rúnar Sigurðsson.

Ísland er sem stendur í 15. sæti í heildarkeppninni en aðeins eru 10 af 37 þjóðum enn þá með alla 15 hlaupara inni. Af skilgreindum smáþjóðum er Ísland í fyrsta sæti, rétt á undan Úkraínu og Sviss sem koma í næstu tveimur sætunum. 

Hægt er að fylgjast með hlaupinu í beinni útsendingu og textalýsingu hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×