Rússar hafa haldið uppi stöðugum loftárásum á grunninnviði í Úkraínu eftir að Kertsj-brúin sem tengir Krímskaga við Rússland var sprengd í loft upp um þar síðustu helgi. Á meðal skotmarkanna eru spennistöðvar og raflínur.
Rafmagns- og vatnslaust er í hluta borgarinnar Enerhodar nærri Saporisjía-kjarnorkuverinu eftir sprengjuárásir, að sögn AP-fréttastofunnar. Þá hæfðu flugskeyti orkuinnviði nærri borginni Kryvíj Rih í Miðsuður-Úkraínu. Tjónið olli rafmagnsleysi í þorpum, bæjum og einu hverfi borgarinnar, að sögn héraðsstjórans þar.
Selenskíj forseti fullyrti í tísti í gær að nærri því þriðjungur orkuvera landsins væru eyðilagðar eftir spengjuárásir Rússa frá 10. október. Það hafi valdið meiriháttar rafmagnsleysi. Í daglegu sjónvarpsávarpi sínu í gærkvöldi hvatti Selenskíj landa sína til þess að slökkva á raftækjum og að fara almennt sparlega með rafmagn á háannatíma til að hjálpa öllu landinu.
Vestræn ríki hafa lofað Úkraínumönnum loftvarnarkerfum til þess að verjast árásum Rússa. Selenskíj sagði í ávarpinu að þýskt kerfi sem væri nýkomið í notkun gæfi nú þegar góða raun.