FCK er að spila á útivelli á móti Sevilla á Estadio Ramón Sánchez Pizjuán í Andalúsíu.
FCK er á eftir sínum fyrsta sigri og fyrsta marki í riðlakeppni Meistaradeildinni en liðið náði markalausu jafntefli á móti Sevilla og Manchester City á heimavelli.

Liðið hefur aftur á móti tapað útileikjunum, fyrst 3-0 á móti Borussia Dortmund og svo 5-0 á móti Manchester City.
Þetta er þriðji byrjunarliðsleikur Ísaks í Meistaradeildinni á tímabilinu en annar byrjunarliðsleikur Hákons. Þetta er aftur á móti í fyrsta sinn sem þeir eru báðir í byrjunarliðinu.
Hákon byrjaði líka síðasta leik á móti Manchester City en Ísak kom þá inn á sem varamaður.
Orri Steinn Óskarsson er á varamannabekknum hjá FCK og gætu því þrír íslenskir leikmenn komið við sögu í leiknum. Orri var líka á bekknum í fyrri leiknum á móti Sevilla en á enn eftir að fá sitt fyrsta tækifæri í Meistaradeildinni.