Handbolti

„Þetta var bara geggjuð stemning og við náðum að drekka það í okkur“

Jón Már Ferro skrifar
Björgvin Páll Gústavsson var frábær í kvöld.
Björgvin Páll Gústavsson var frábær í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Björgvin Páll Gústavsson, markmaður Vals, var frábær í kvöld, sérstaklega í fyrri hálfleik. Hann var einn þeirra sem átti stóran þátt í því að landa þessum merkilega sigri á móti FTC Ferencváros frá Ungverjalandi.

„Mjög stoltur og svolítið þreyttur. Þetta var rosalegur leikur í 60 mínútur. Lokatölurnar, 44 – 39, segja alla söguna um hvernig þessi leikur var.“

Í seinni hálfleik var Björgvin Páll tekinn út af og inn kom Motoki Sakai. Það var ekki vegna lélegrar framistöðu Björgvins heldur var hraði leiksins svo rosalegur að hann þurfti á hvíldinni að halda.

„Þetta var svolítið mikið. Við vorum að keyra á þá í fyrri hálfleik, þá var þetta auðveldara. Svo var þetta fram og til baka endalaust. Einbeitingin var farin, maður var svolítið þreyttur. Sjaldan hef ég verið þreyttur í handboltaleik sem markmaður. Taugakerfið var bara svolítið sigrað. Það var búið að vera bortennis í þessu. Það var frábært að skila þessu í hús. Þeir svöruðu þessu með að hlaupa, við hlupum bara meira. Þess vegna þurftum við á öllum að halda.“

Björgvin er á því að leikurinn í kvöld og allt í kringum hann hafi verið töluvert ólíkt hefðbundnum leik í Olís deildinni.

„Já, allt öðruvísi. Líka bara stemningin. Það var fullt hús. Við vorum með forsetann. Það er dúkurinn, þetta er rosalega mikil gæsahúð og læti fyrir leik. Þetta var bara geggjuð stemning og við náðum að drekka það í okkur. Það er ekkert sjálfgefið. Margir sem lenda í þessum aðstæðum koðna niður. Við erum með svo mikið af töffurum í liðinu að þeir risu bara upp. Þetta er bara úrslitakeppni fyrir okkur og að skila svona sigri í hús í fyrsta leik er náttúrulega bara galið.“

Næsti leikur Vals er á móti spænska liðinu Benidorm, eyju sem flestir Íslendingar þekkja.

„Við erum að fara í mjög skemmtilegt verkefni í næsta leik á Benidorm. Það er allt öðruvísi leikur. Mér skilst að þeir séu að spila einhverja 3-2–1 vörn eða 5–1 vörn. Spila líka mjög mikið 7 á 6. Það verður erfitt fyrir okkur að spila okkar leik. Við erum ekkert að bakka með okkar.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×