Gummersbach náði fljótt upp öruggri forystu gegn botnliði Minden í kvöld of lét hana aldrei af hendi. Liðið leiddi með þremur mörkum í hálfleik, 10-7, og vann að lokum góðan fjögurra marka sigur, 26-22.
Elliði Snær Viðarsson skoraði fimm mörk fyrir Gummersbach í kvöld og Hákon Daði Styrmisson tvö. Guðjón Valur Sigurðsson þjálfar liðið, en Gummersbach situr nú í áttunda sæti deildarinnar með 11 stig eftir níu leiki, en Minden er enn án stiga á botninum.
Þá unnu Arnar Freyr Arnarsson, Elvar Örn Jónsson og félagar þeirra afar sannfærandi tíu marka sigur gegn Hamm-Westfalen, 18-28.
Arnar Freyr skoraði fjögur mörk fyrir Melsungen og Elvar Örn eitt, en þetta var annar sigur liðsins í röð sem nú situr í tíunda sæti með átta stig. Hamm-Westfalen situr hins vegar í næst neðsta sæti með aðeins tvö stig.