Erlent

Hyggjast sekta skólastarfsmenn fyrir þátttöku í verkfallsaðgerðum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Doug Ford, ríkisstjóri Ontario, hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir frumvarpið.
Doug Ford, ríkisstjóri Ontario, hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir frumvarpið. epa/Warren Toda

Ríkisstjóri Ontario í Kanada hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir frumvarp sem stjórnvöld hafa kynnt til sögunnar, sem kveður á um að stuðningsstarfsfólk í skólum geti átt á hættu að verða sektað um 4 þúsund Kanadadollara á dag, 430 þúsund krónur, fyrir að taka þátt í verkfallsaðgerðum.

Gagnrýnendur frumvarpsins segja það grafa undan réttindum vinnufólks og setja hættulegt fordæmi.

Bandalag opinberra starfsmanna, sem telur meðal annars 55 þúsund almenna skólastarfsmenn, hefur krafist 11,3 prósent launahækkunar og segja tekjustöðnun og verðbólgu hafa komið verst niður á þeim sem hafa lægstu launin.

Stjórnvöld hafa hins vegar boðið þeim launalægstu 2,5 prósenta hækkun og öðrum 1,5 prósent.

Eftir árangurslausar viðræður í nokkurn tíma og fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir á morgun gripu stjórnvöld til þess ráðs að leggja fram hið umdeilda frumvarp. Það felur í sér, auk sekta á einstaka starfsmenn, 500 þúsund dala sekt á stéttarfélagið.

Ráðamenn hafa gengist við því að frumvarpið gangi gegn mannréttindasáttmálum en segja forgangsatriði að koma í veg fyrir verkfallsaðgerðir. Til að forðast að brjóta gegn lögum vitna þau í ákvæði sem er sjaldan notað, sem kveður á um að fara megi gegn mannréttindasáttmálanum í allt að fimm ár, svo fremi sem umræddar aðgerðir séu sannarlega réttlætanlegar í frjálsu og lýðræðislegu samfélagi.

Aðgerðir yfirvalda í Ontario hafa meðal annars verið gagnrýndar af dómsmálaráðherra Kanada og forsætisráðherranum Justin Trudeau, sem segir ákvörðunina ganga gegn réttindum fólks og frelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×