Fótbolti

Segja að Arnór hafi í raun verið bestur í sænsku deildinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnór Sigurðsson kom eins og stormsveipur inn í sænsku úrvalsdeildina.
Arnór Sigurðsson kom eins og stormsveipur inn í sænsku úrvalsdeildina. vísir/hulda margrét

Að mati álitsgjafa Fotbollskanalen var Arnór Sigurðsson sjöundi besti leikmaður sænsku úrvalsdeildarinnar á nýafstöðnu tímabili en samt líklega sá besti.

Arnór gekk aftur í raðir Norrköping á láni frá CSKA Moskvu um mitt tímabil. Hann lék ellefu af þrjátíu deildarleikjum liðsins, skoraði sex mörk og lagði upp fjögur. Þá skoraði hann eitt mark í einum bikarleik.

Fotbollskanalen hefur valið fimmtíu bestu leikmenn sænsku úrvalsdeildarinnar tímabilið 2022 sem lauk um helgina. Álitsgjafar Fotbollskanalen settu Arnór í 7. sæti listans en einungis því hann spilaði svo lítið.

„Var eiginlega besti leikmaður deildarinnar en er ekki efstur hjá okkur því hann spilaði bara hálft tímabilið. Alls ráðandi í mörgum leikjum,“ sagði í umsögn Fotbollskanalen.

Efstu þrír á listanum vefsíðunnar koma úr meistaraliði Häcken. Þetta eru þeir Samuel Gustafson, Mikkel Rygaard og Alexander Jeremejeff.

Arnór gekk í raðir Norrköping frá ÍA 2017 en var seldur til CSKA Moskvu ári seinna. Framan af dvöl sinni í Rússlandi var hann í stóru hlutverki hjá rússneska liðinu og skoraði meðal annars tvö mörk í Meistaradeild Evrópu, gegn Real Madrid og Roma.

Skagamaðurinn var lánaður til Venezia á Ítalíu á síðasta tímabili og svo til Norrköping í byrjun júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×