Handbolti

Ásgeir Örn tekur við Haukum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ásgeir Örn Hallgrímsson ásamt Aroni Kristjánssyni og Þorkeli Magnússyni.
Ásgeir Örn Hallgrímsson ásamt Aroni Kristjánssyni og Þorkeli Magnússyni. haukar

Ásgeir Örn Hallgrímsson hefur verið ráðinn þjálfari Hauka í Olís-deild karla til 2025. Hann tekur við liðinu af Rúnari Sigtryggssyni.

Í gær var greint frá því að Rúnar hefði samið við þýska úrvalsdeildarliðið Leipzig sem Viggó Kristjánsson leikur með. Rúnar tekur strax til starfa og stýrir Leipzig í fyrsta sinn gegn Wetzlar annað kvöld.

Haukar hafa fundið eftirmann Rúnars en það er silfurdrengurinn Ásgeir Örn. Þetta er hans fyrsta þjálfarastarf en síðan hann lagði skóna á hilluna 2020 hefur hann verið sérfræðingur Seinni bylgjunnar á Stöð 2 Sport. Tjörvi Þorgeirsson verður aðstoðarmaður Ásgeirs Arnar.

Ásgeir Örn er einn dáðasti sonur Hauka. Hann er uppalinn hjá félaginu og varð fjórum sinnum Íslandsmeistari með því áður en hann hélt út í atvinnumennsku 2005. Ásgeir Örn sneri svo heim 2018 og lauk ferlinum á Ásvöllum.

Ásgeir Örn lék 252 landsleiki á árunum 2003-18 og var í íslenska liðinu sem vann silfur á Ólympíuleikunum 2008 og brons á EM 2010. Aðeins Guðjón Valur Sigurðsson hefur spilað á fleiri stórmótum en Ásgeir Örn.

Illa hefur gengið hjá Haukum í upphafi tímabils. Liðið er í 10. sæti Olís-deildarinnar og tapaði með samtals tólf marka mun fyrir Anorthosis frá Kýpur í 2. umferð Evrópubikarsins um helgina.

Ásgeir Örn stýrir Haukum í fyrsta sinn þegar þeir fá Íslands-, bikar- og deildarmeistara Vals í heimsókn á mánudagskvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×