Fótbolti

Bale bannað að spila golf í Katar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gareth Bale í miðri sveiflu með ímyndaða golfkylfu.
Gareth Bale í miðri sveiflu með ímyndaða golfkylfu. getty/Stu Forster

Gareth Bale, skærasta stjarna velska fótboltalandsliðsins, dvelur langtímum saman úti á golfvelli. Hann verður hins vegar að finna sér eitthvað annað að gera milli leikja á HM í Katar því honum hefur verið bannað að spila golf.

Rob Page, þjálfara velska landsliðsins, fannst ekki fýsilegt að láta leikmenn liðsins spila átján holur milli leikja.

„Það dimmir eftir klukkan fjögur. Við skoðuðum þetta en höfum væntanlega ekki tækifæri til þess,“ sagði Page sem var svo spurður hvort hann hefði tjáð Bale þetta. „Já, það er ekkert golf. Við erum þarna til að standa okkur.“

Bale hefur oft verið gagnrýndur fyrir óhóflegan golfáhuga, meðal annars af stuðningsmönnum Real Madrid þar sem hann spilaði í tæpan áratug. Frægt var þegar hann hélt á velska fánanum með áletruninni Wales, golf, Madrid“ eftir að Walesverjar tryggðu sér sæti á EM 2020. Forgangsröðunin á hreinu hjá þessum frábæra leikmanni sem varð MLS-meistari með Los Angeles City um síðustu helgi.

Wales er á leið á sitt fyrsta heimsmeistaramót síðan 1958. Þar komust Walesverjar í átta liða úrslit en töpuðu fyrir Brasilíumönnum sem urðu svo heimsmeistarar.

Wales er í riðli með Englandi, Bandaríkjunum og Íran á HM. Fyrsti leikurinn er gegn Bandaríkjamönnum 21. nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×