Lífið

Sjö ára gamall við­skipta­jöfur safnar fyrir PlaySta­tion með köku­sölu

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Víkingur Darri selur döðlugott og smákökur, í von um að geta einn daginn keypt sér Playstation tölvu.
Víkingur Darri selur döðlugott og smákökur, í von um að geta einn daginn keypt sér Playstation tölvu. Aðsend

„Margur er knár þó hann sé smár,“ segir í máltækinu og er hinn sjö ára gamli Víkingur Darri Traustason frábært dæmi um það. Víking dreymir um að eignast PlayStation leikjatölvu. Hann ákvað því að byrja með kökusölu fyrir vini og vandamenn, í von um að geta einn daginn keypt sér leikjatölvuna.

„Hann er alltaf að braska eitthvað. Hann er voða duglegur að safna sér fyrir einhverju sem hann veit að kostar. Svo datt honum þetta í hug,“ segir Sigríður Ýr Aradóttir, móðir Víkings.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi úrræðagóði drengur stundar viðskipti, því á síðasta ári seldi hann vinum og ættingjum smákökur til þess að safna sér gjaldeyri fyrir utanlandsferð. Sigríður hefur ekki hugmynd um það hvaðan þetta mikla viðskiptavit sonarins kemur.

Í fyrra seldi Víkingur smákökur til að safna sér gjaldeyri fyrir utanlandsferð.Aðsend

Helgin fer í bakstur og heimkeyrslu

„Hann er búinn að þrá þessa tölvu mjög lengi. Ég var búin að benda honum á að hún kostaði mjög mikið, þannig hann ákvað bara að gera þetta svona.“

Víkingur býður upp á döðlugott og smákökur og kostar pokinn þúsund krónur. Sigríður ákvað að auglýsa kökusöluna fyrir vinum og ættingjum á Facebook síðu sinni og hafa pantanirnar hrannast inn.

„Þetta hefur fengið mjög góðar viðtökur. Við þurfum að gera hundrað poka, þannig mér sýnist helgin bara fara í þetta. Laugardagurinn í bakstur og sunnudagurinn í það að keyra út. Því ég var víst búin að lofa heimkeyrslu,“ en Sigríður segir þau mæðgin ekki taka við fleiri pöntunum í bili.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×