Sú staðreynd að Vesturlönd eru háð Kína um ákveðna málma hefur hingað til aðeins angrað fámennan hóp sérfræðinga. Núna eru slíkar áhyggjur hins vegar orðnar almennar eins og lesa má úr fyrirsögnum fjölmiðla og heimildaþáttaröðum á BBC. Við höfum hins vegar ekki ennþá svarað mikilvægustu spurningunni: Hvað getum við gert í þessu?
Ekki er mögulegt að afneita þeim hættum sem eru framundan. Eins og Evrópa hefur komist að raun um á síðustu mánuðum er ekki skynsamlegt að reiða sig á óvinveitt ríki til að útvega lífsnauðsynlegar hrávörur. Lausnin við núverandi orkukreppu – að hraða orkuskiptum yfir í endurnýjanlega orku – gæti raunverulega átt á hættu að sagan endurtaki sig í öðrum búningi. Því sú lausn gerir okkur enn háðari málmum á borð við kóbalt, nikkel, grafít, liþíum og kopar.
Rafhlöður, vindmyllur og stækkandi flutningskerfi raforku – allt eru þetta fyrirbæri sem kalla nauðsynlega á áðurnefnda málma sem skipta svo miklu í orkuskiptunum. Alþjóðabankinn hefur metið þetta sem svo að auka þurfi framleiðslu á þessum ákveðnu málmum um 500 prósent fram til ársins 2050.
Vestræn stjórnvöld hamast nú við að marka sér stefnu sem snýr að því að hraða orkuskiptum án þess að verða of háð Kínverjum um mikilvæga málma.
Rétt eins og Rússland er mikilvægur framleiðandi jarðefnaeldsneytis, yfirgnæfir Kína alla aðra við framleiðslu mikilvægra málma. Kína framleiðir á milli 60 og 70 prósent af öllu liþíum, nikkel og kóbalt í heiminum. Landið hefur ráðist í miklar fjárfestingar í stórum námaverkefnum á þessum málmum – allt frá kóbalti í Kongó til nikkels í Indónesíu. Yfirráð Kínverja yfir téðum málmum eru því alltaf að aukast og verða umfangsmeiri.
Vestræn stjórnvöld hamast nú við að marka sér stefnu sem snýr að því að hraða orkuskiptum án þess að verða of háð Kínverjum um mikilvæga málma. Í nýsamþykktum lögum í Bandaríkjunum sem snúa að því að draga úr verðbólgu er að finna töluverða skattalega hvata fyrir framleiðendur rafbíla að kaupa málma frá áreiðanlegum birgjum. Bretland hefur ýtt úr vör stefnu um mikilvæga málma sem snýr meðal annars að því að auka innlenda vinnslugetu. Evrópusambandið og Ástralía eru að skoða sín á mál á svipuðum nótum.
Ef vestræn ríki hafa ekki aðgang að mikilvægum málmum frá vinveittum ríkjum á sanngjörnu verði þá munu þau aftur verða upp á óvinveitt ríki komin.
Allar ofangreindar ríkisstjórnir líta að aukna endurvinnslu málmanna sem hluta af lausninni. En endurvinnsla á málmunum skilar aðeins svo og svo miklu. Stefna allra snýr líka að því að ráðast í og þróa fleiri námuverkefni og vinnslustöðvar fyrir málmana. Annað hvort innanlands eða hjá vinveittum löndum.
En þessi viðleitni horfir framhjá meiriháttar hindrun: Að staðbundin stjórnmál á hverjum stað nái að samþykkja aukna námavinnslu og meðfylgjandi verksmiðjur. Í ríkum löndum ríkir svokallað „not in my backyard“ -hugarfar, andstaða er meðal umhverfisverndarsinna og flóknar skipulagsreglur þýða að leyfisveitingaferli fyrir stórar námur getur tekið áratugi, ef slík leyfi fást þá yfir höfuð.
Í lágtekjulöndum mætir námavinnsla líka ýmis konar andstöðu frá heimamönnum, þar sem alið er á tortryggni gagnvart vestrænum námufyrirtækjum. Í bæði ríkum og fátækum löndum hefur námavinnsluverkefnum verið frestað eða hafnað á slíkum forsendum – í Bandaríkjunum, Portúgal, Serbíu og Perú.
Aðgerðasinnar af þessu tagi eru auðvitað ákveðið lýðræðislegt heilbrigðismerki. En hættan er þó enn til staðar. Ef vestræn ríki hafa ekki aðgang að mikilvægum málmum frá vinveittum ríkjum á sanngjörnu verði þá munu þau aftur verða upp á óvinveitt ríki komin. Áhyggjur af því að Kína vopnavæði yfirráð sín yfir mikilvægum málmum líkt og Rússland gerði með jarðgasið er nú til umræðu meðal stefnusmiða.
Námavinnslufyrirtæki, studd af vestrænum stjórnvöldum, þurfa að tryggja að ný vinnsla færi heimamönnum á hverjum stað meiri efnahagslegan ávinning en áður og taki aukið tillit til aðstæðna á hverjum stað.
Ef ekki verður ráðist að rótum vandans fljótlega þá gætu vestræn stjórnvöld þurft að vaða yfir stjórnmálamenn á hverjum stað og hefja námavinnslu í þágu þjóðaröryggis. Einnig er hugsanlegt að vestræn stjórnvöld beiti öllum sínum þunga til að fá þróunarríki til að hefja námuvinnslu, algjörlega óháð þeirri andstöðu sem mætt er á hverjum stað. Þetta hefur verið mynstur auðlindavinnslu síðastliðna öld eða lengur.
Til að forðast slík vinnubrögð þarf að ná samkomulagi milli námavinnslufyrirtækja og heimamanna á hverjum stað. Endurstilla þarf samskipti milli hópanna tveggja á öllum stöðum þar sem möguleikar eru á námavinnslu í ríkjum sem eru vinveitt vestrænum ríkjum.
Námavinnslufyrirtæki, studd af vestrænum stjórnvöldum, þurfa að tryggja að ný vinnsla færi heimamönnum á hverjum stað meiri efnahagslegan ávinning en áður og taki aukið tillit til aðstæðna á hverjum stað. Einnig þarf að taka aukið tillit til umhverfis- og lýðheilsusjónarmiða við námavinnslu. Í þróunarríkjum þurfa fyrirtækin að sýna að þau geta staðið sig miklu betur en kínverskir keppinautar. Vestræn námafyrirtæki eru þegar með ýmis konar jákvæð verkefni í gangi í þessum efnum en þurfa að bæta enn meira í.
En gamlir siðir gleymast seint og andstaða við stórfyrirtæki sem vilja hefjast handa við stór verkefni er inngróin í hugarfar margra.
Í skiptum fyrir þessa bættu viðleitni námavinnslufyrirtækjanna, þurfa stjórnvöld á hverjum stað að auðvelda leyfisveitingaferli og hraða þeim. Samfélög á hverjum stað þurfa að samþykkja vel hönnuð verkefni. Umhverfisverndarsinnar hljóta að sjá mikilvægi málsins með tilliti til orkuskipta. En gamlir siðir gleymast seint og andstaða við stórfyrirtæki sem vilja hefjast handa við stór verkefni er inngróin í hugarfar margra. Hér þurfa ríkisstjórnir að stíga inn og sætta sjónarmið milli fyrirtækja og samfélaga.
Einhverjir gætu haldið því fram að hér sé um að ræða beiskt meðal við einhverju sem er ekki orðið að vandamáli. En hætturnar sem fylgja því að reiða sig á Kína í þessum efnum eru of augljósar. Besta leiðin fram á við er að hefja meiri námavinnslu nær okkur. Til þess að slíkt megi gerast þarf nýja og róttæka nálgun.
Daniel Litvin er framkvæmdastjóri Critical Resource og höfundur bókarinnar Empires of Profit: Commerce, Conquest, and Corporate Responsibility (Texere, 2004). @Project Syndicate 2022.