Innherji

„Við erum ekki að elta vísinda­skáld­skap“

Hörður Ægisson skrifar
Örn Valdimarson, forstjóri og einn stofnenda Axelyf, en félagið hefur núna sótt sér um sex hundruð milljónir í nýtt hlutafé frá innlendum og erlendum fjárfestum. 
Örn Valdimarson, forstjóri og einn stofnenda Axelyf, en félagið hefur núna sótt sér um sex hundruð milljónir í nýtt hlutafé frá innlendum og erlendum fjárfestum. 

Axelyf hefur lokið við fjármögnun upp á samtals tæplega 600 milljónir króna leidda af Brunni vaxtarsjóði II en líftæknifyrirtækið ætlar að hasla sér völl í næstu byltingu í svonefndri RNA-tækni, meðal annars þegar kemur að sjálfsofnæmissjúkdómum, en lausnirnar þar geta veitt nýja möguleika við að meðhöndla sjúkdóma sem hefðbundin lyf ná illa til. Forstjóri og einn stofnenda Axelyf, sem á rætur sínar að rekja til Íslands, segir að félagið sé „ekki að elta vísindaskáldskap“ heldur að byggja upp vettvang sem geti haft raunveruleg áhrif á líf fólks með flókin veikindi.

Forstjóri Axelyf, félag sem var stofnað hér á landi árið 2022, er Dr. Örn Almarsson, efnafræðingur með yfir þrjátíu ára reynslu frá lyfjafyrirtækjum á borð við Moderna, Lyndra, Merck og Alkermes. Örn er meðal þeirra sem leiddu þróun mRNA bóluefna hjá Moderna á fyrstu stigum COVID-19 heimsfaraldursins en hefur núna beint athyglinni að „tækni framtíðarinnar“, eins og hann orðar það, með þróun nýrrar kynslóðar RNA-lyfja sem til viðbótar við sjálfsofnæmissjúkdóma getur bætt meðferðir við krabbamein og erfðasjúkdóma.

Félagið kláraði núna í lok júlímánaðar hlutafjáraukningu að fjárhæð um 4,8 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði um 590 milljónir króna á núverandi gengi, en um var að ræða svokallaða seed- fjármögnun. Til viðbótar við Brunn vaxtarsjóð II þá tóku fjárfestingafélögin Silfurberg og Omega þátt og jafnframt nokkrir erlendir fjárfestar með reynslu úr heilbrigðis- og lyfjageiranum. Árni Blöndal, einn af stofnendum Brunns, tekur í kjölfarið sæti í stjórn Axelyf.

Brunnur vaxtarsjóður I og Silfurberg, sem er í eigu hjónanna Friðriks Steins Kristjánssonar og Ingibjargar Jónsdóttur, voru meðal annars fyrstu fjárfestarnir í líftæknifyrirtækinu Oculis. Fjárfestarnir Birgir Már Ragnarsson og Andri Sveinsson fara fyrir félaginu Omega en það var stærsti hluthafinn þegar Kerecis var selt fyrir um 1,3 milljarða Bandaríkjadala sumarið 2023.

Árni Blöndal er annar af stofnendum Brunns, sérhæfður sjóður í rekstri Landsbréfa og Brunns Ventures, og mun taka sæti í stjórn fjárfestingar sjóðsins í Axelyf.

Hinir nýju fjárfestar sem koma núna að Axelyf munu, eftir því sem Innherji kemst næst, eignast samanlagt nálægt þrjátíu prósenta hlut í líftæknifyrirtækinu – en þar munar langsamlega mest um eignarhlut Brunns. Stærstu hluthafar Axelyf eru hjónin Örn og Brynja Einarsdóttur ásamt meðstofnanda þeirra Dr. John M. Lucas, reynslumikill stjórnandi úr líftæknigeiranum og með langan feril í vöruþróun og gerð einkaleyfa.

mRNA-bóluefnin ruddu að hluta til brautina

Í viðtali við Innherja segir Örn að með fjármögnuninni sem félagið hefur tryggt sér, sem mun tryggja reksturinn til að minnsta kosti átján mánaða, geti það haldið áfram því samstarfi sem þegar er hafið við erlenda samstarfsaðila og markmið sé að hefja klínískar prófanir á fyrstu RNA-meðferðum sínum á næstu misserum. Þá heldur fyrirtækið áfram þróun á nýjum lípíðum fyrir örugga og skilvirka afhendingu stórra kjarnsýra (RNA og líka DNA) án veiruagna, svokallaðra non-viral delivery, sem er meginþema tækninnar, útskýrir Örn.

Hann bætir við að ásamt hlutafjáraukningunni og samstarfsverkefnum við erlend lyfjafyrirtæki, sem getur skilað Axelyf hlutdeild í tekjum af þeim verkefnum, þá séu stjórnendur félagsins einnig núna að vinna að því að afla styrkja í Bandaríkjunum, en Axelyf hefur þegar fengið styrki frá Rannís á Íslandi.

Örn bendir á að þrátt fyrir að mRNA-bóluefnin hafi sumpart rutt brautina fyrir RNA-LNP þá sé núna þörf á nýjum lyfjum með mRNA og öðrum RNA-sameindum. Axelyf búi yfir tækni og hugverkum, meðal annars eftir að gera samning um kaup á öllu efnasafni frá bandaríska fyrirtækinu 76bio, sem verða nýtt í vegferð til þróunar lyfja fyrir mýmörg svið, en félagið mun beita sér á sviði ónæmis.

„Lyfjatæknin sem byggir á RNA-sameindum, eins og meðal annars mRNA, er einskonar farmur í flutningi á rétta staði í líkamanum. Þar geta RNA-efnin haft bein áhrif á starfsemi frumna og ónæmiskerfisins. RNA „farmurinn“ er þannig hannaður til að stjórna ónæmissvörun, til dæmis með því að draga úr ofvirkum ónæmisferlum sem valda sjálfsofnæmissjúkdómum. Kjarninn í AXL-tækni Axelyf eru sérhönnuð lípíð sem með RNA mynda agnir sem vernda RNA-ið og koma því örugglega inn í frumur. Þessar lípíðagnir eru með yfirborðshjúp sem er hægt að breyta með sértækum efnum til að leiða agnirnar að ákveðnum vefjum frumna og auka þannig nákvæmni meðferðar.“

Við erum að byggja upp vettvang sem getur haft raunveruleg áhrif á líf fólks með flókin veikindi og leysa erfið vandamál við lyfjaupptöku sem stendur þar í veginum. Þannig vil ég sjá vegferðina og verðmætasköpunina þróast og ég er bjartsýnn á framtíðina.

Örn bætir við að þess konar lausnir geti veitt nýja möguleika til að meðhöndla sjúkdóma sem hefðbundin lyf ná illa til. Tæknin sé þá að nýta þann lærdóm sem kom fram við þróun mRNA-bóluefna en sé núna beint að meðferð í stað fyrirbyggjandi bólusetningar.

Hvernig er þróun þessara RNA-lyfja frábrugðin hefðbundinni lyfjaþróun?

„Flest hefðbundin lyf virka eins og efnaskiptarofar,“ útskýrir Örn, og heldur áfram: „Þau reyna að hindra eða virkja eitthvað sem þegar er í líkamanum. Líftæknilyf eins og mótefni virka fyrir utan frumur og ná ekki að nálgast beint innviði frumna til að hafa áhrif. RNA-byggð lyf eru öðruvísi. Þau senda leiðbeiningar inn í frumur um að breyta starfseminni á gagnlegan hátt. Annaðhvort framleiða rétt prótein þar sem áður var villa í próteinframleiðslu eða hætta að framleiða skaðlegt prótein. Þetta líkist því að uppfæra hugbúnað í stað þess að laga vélbúnað.“

Axelyf ætlar að verða „frumherji“ í þróun RNA-lyfja

Axelyf þróar sérhæfðar fitueindir sem nefnast lipíð-nanóagnir (LNP, Lipid Nano-Particles) og eru notaðar sem flutningskerfi fyrir RNA-lyf. Þessi LNP-efni eru, að sögn Arnar, lykilatriði til að koma viðkvæmum RNA-efnum inn í réttar frumur í líkamanum.

„Hefðbundin LNP-kerfi skila sér mest í lifur og krefjast stórra skammta. Nýju nanóagnir Axelyf hafa sýnt betri virkni í tilraunum á dýrum. Þau eru skilvirkari, virka með minni skömmtum, sem er mikilvægt fyrir öryggi lyfja af þessum toga. Svo er einnig hægt að sérsníða að mismunandi líffærum og sýna engin merki um lifrarskaða. Þar að auki er Axelyf að breyta yfirborði LNP-agna til að stuðla að upptöku í frumu utan lifrarinnar.“

Aðspurður segir Örn að markmiðið hjá Axelyf sé að verða „frumherji“ þegar kemur að þróun RNA-lyfja til að vinna á móti alls konar sjálfsofnæmissjúkdómum.

„Við stöndum frammi fyrir tækifæri til að umskrifa hvernig ónæmis- og erfðalyf eru hönnuð og sett inn í líkamann – án veiruagna, sem nú sýna sig að hafa marga vankanta í klínískri notkun. Við erum að þróa nýjar víddir til að skila efnum með okkar ferjuefnum á skilvirkan hátt og með verkun í frumum ónæmiskerfisins án bólgusvörunar,“ segir Örn. „RNA er ekki bara tækni framtíðarinnar, hún er nú þegar farin að skila árangri í sjúklingum með RNA-lyfjum eins og Spinraza, Onpattro og Givlaari.“

Það er góðs viti þegar stóru fyrirtækin koma inn og gefa þessari tækni ákveðinn stimpil.

Örn segist vera þakklátur fyrir traust fjárfesta og félagið hlakki til að nýta þessa stöðu til að efla vöruþróun og mynda ný samstarfsverkefni.

„Við erum ekki að elta vísindaskáldskap, heldur erum við að byggja upp vettvang sem getur haft raunveruleg áhrif á líf fólks með flókin veikindi og leysa erfið vandamál við lyfjaupptöku sem stendur þar í veginum. Þannig vil ég sjá vegferðina og verðmætasköpunina þróast og ég er bjartsýnn á framtíðina.“

Vaxandi áhugi fjárfesta á geiranum

Það var um mitt sumarið í fyrra sem Axelyf gekk sem fyrr segir frá kaupum á efnasafni frá fyrirtækinu 76bio, meðal annars með aðkomu Brunns, en það félag var að hluta mannað fyrrverandi sérfræðingum frá Moderna í mRNA-LNP tækni. Þar áskotnaðist Axelyf hugverk sem það hefur síðan útfært og verndað með nýjum einkaleyfisumsóknum. Nú er safnið innifalið í heildarsafni Axelyf, sem kallast AXL-tækni, en það inniheldur tugi nýrra efna sem eru mörg með sterka virkni fyrir RNA-flutning og geta að auki brotnað niður eftir að hafa lokið dreifingu – sem skiptir máli fyrir öryggi lyfja sem byggjast á efninu.

Fjárfestingar af vísisjóðum í mRNA, RNA fyrirtækjum 2021-2025 (Heimild: Pitchbook)

Félög af þessum toga, einkum vestanhafs, hafa að undanförnu fangað athygli margra vísifjárfesta en sum þeirra höfðu misst flugið þegar óraunhæfar væntingar mynduðust á árunum 2020 til 2021 samhliða því að fjárfestar lögðu þeim til mikla fjármuni.

Þróun síðustu fimm ára er að RNA-afhending er orðin lykilþema í líftæknifjárfestingum vegna erfðabreytinga, bóluefna og frumulækninga. LNP-kerfi eru orðin grundvallarinnviðir, en öll stórtæk RNA-fyrirtæki þurfa annaðhvort að þróa eða leigja slíka getu. Til marks um það hafa lyfjafyrirtæki og vísisjóðir farið af krafti inn á þetta svið – þær fjárfestingar hafa hins vegar farið minnkandi frá 2021 – en samtals 13,6 milljörðum dala hefur verið fjárfest í RNA-flutningstækni á undanförnum fimm árum.

Örn bendir á að greint var frá tveimur stórum viðskiptum með skömmu millibili í sumar þegar fyrirtæki sem starfa á þessu sviði voru keypt bandarískum lyfjarisum. Þannig var Verve Therapeutics, fyrirtæki í genalyfjum fyrir hjarta- og æðakerfissjúkdóma, keypt af Eli Lilly fyrir 1,3 milljarða dala og þá kláraði Abbvie sömuleiðis kaup á Capstan Therapeutics fyrir 2,1 milljarð dala. Síðarnefndu kaupin, útskýrir Örn, hafa sérstaklega vakið athygli enda hafi Capstan Therapeutics, fjögurra ára gamalt fyrir með RNA-LNP tækni fyrir T frumu meðferð í sjálfsónæmi, aðeins nýlega verið byrjað í fasa1 klínískum rannsóknum þegar félagið var keypt.

„Það er góðs viti þegar stóru fyrirtækin koma inn og gefa þessari tækni ákveðinn stimpil. Ferjutækni og RNA-meðferðir eru mjög í deiglunni og Axelyf hyggst sýna að AXL sé tækni sem sé fremst í flokki fyrir LNP og RNA lyfjaþróun,“ segir Örn.

Einkaleyfastefnan verið í fyrirrúmi frá fyrsta degi

Upphafleg hugmynd Axelyf þegar það var stofnað hér á landi 2022 – það er núna dótturfélag Axelyf Inc. í Delaware sem ver sett á fót í vor á þessu ári í tengslum við fjármögnun félagsins – var að þróa forlyf af efninu astaxanthin, náttúrulegu andoxunarefni með bólgueyðandi áhrifum Axelyf hefur hlotið einkaleyfi á afleiðu af astaxanthini sem forlyf og skilar astaxanthini betur í blóðstreymið miðað við fæðubótarefni með astaxanthini.

Við höfum lært að búa til verðmæti úr þróunarstarfi, ekki bara á vísindalegri nýsköpun heldur einnig á því að verja hugvitið.

Forlyfið sýndi sambærilega bólgueyðandi virkni í dýrum samanborið við lyf eins og Xeljanz frá Pfizer, sem seldist fyrir 2,6 milljarða dala árið 2022 í Bandaríkjunum. Notkun þess lyfs getur hins vegar haft alvarlegar aukaverkanir á borð við hjartasjúkdóma, krabbamein og blóðtappa. Astaxanthin forlyfsverkefnið hefur fengið styrki frá Rannís og miðar að því að þróa nýja meðferð við sjálfsofnæmissjúkdómum á borð við gigt og psoriasis.

John Lucas, meðstofnandi Axelyf, og Örn hafa unnið saman um langt skeið, meðal annars að þróun lyfja og einkaleyfa. Fyrir tveimur áratugum unnu þeir saman hjá sprotafyrirtækinu Transform Pharmaceuticals að útfærslu á lyfinu Topiramate, sem Johnson & Johnson (J&J) markaðsetti og var með háa sölu á þeim tíma. Örn fann upp nýtt form og nýja formúleringu sem John fékk síðan einkaleyfi á fyrir hönd Transform. J&J tók leyfi á þessum hugverkum og var að lokum keypt af fyrirtækinu árið 2005.

„Frá fyrsta degi hefur einkaleyfastefnan verið í fyrirrúmi. Við höfum lært að búa til verðmæti úr þróunarstarfi, ekki bara á vísindalegri nýsköpun heldur einnig á því að verja hugvitið,“ undirstrikar Örn að lokum.


Tengdar fréttir

Brunnur skilar sex milljörðum til hlut­hafa með af­hendingu á bréfum í Oculis

Brunnur vaxtarsjóður, fyrsti kjölfestufjárfestirinn í Oculis, hefur skilað rúmlega sex milljörðum króna til hluthafa sinna með afhendingu á allri hlutafjáreign sjóðsins í augnlyfjaþróunarfyrirtækinu. Oculis var skráð á Aðalmarkað í Kauphöllinni í fyrra og annar stofnenda Brunns, sem sat í stjórn félagsins um árabil, segir það alltaf hafa verið álit sitt að Oculis verði að lokum yfirtekið af einum af stóru alþjóðlegu lyfjarisunum þegar það fær markaðsleyfi fyrir sitt fyrsta lyf, líklega snemma árs 2026.

Högnuðust um nærri tuttugu milljarða eftir söluna á Kerecis

Fjárfestingafélag Andra Sveinssonar og Birgis Más Ragnarssonar, sem var stærsti einstaki hluthafinn í Kerecis, hagnaðist um meira en nítján milljarða við risasölu á íslenska líftæknifyrirtækinu á liðnu ári, en frekari viðbótargreiðslur gætu átt eftir að skila sér. Áformað er að greiða út stærstan hluta söluhagnaðarins í arð til hluthafa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×