Heimamenn í Leipzig settu tóninn snemma og náðu þriggja marka forskoti strax í upphafi leiks. Liðinu gekk þó illa að hrista gestina af sér lengst af í fyrri hálfleik, en náði þó sjö marka forystu á lokamínútum hálfleiksins og staðan var 18-11 þegar gengið var til búningsherbergja.
Leipzig náði svo tíu marka forystu um miðjan síðari hálfleikinn og eftirleikurinn því nokkuð auðveldur. Liðið vann að lokum öruggan tíu marka sigur, 33-23, og liðið hefur nú unnið tvo leiki í röð.
Eins og áður segir var Viggó Kristjánsson markahæsti maður vallarins með níu mörk fyrir Leipzig. Liðið situr nú í 11. sæti deildarinnar með átta stig eftir 12 leiki, en Hamm-Westfalen situr enn á botninum með aðeins tvö stig.
Þá skoraði Ýmir Örn Gíslason þrjú mörk í öruggum níu marka sigri Rhein-Neckar Löwen gegn Lemgo, 37-28. Hákon Daði Styrmisson skoraði fjögur fyrir Gummersbach og Elliði Snær Viðarsson eitt er liðið gerði 30-30 jafntefli gegn Arnóri Þór Gunnarssyni og félögum hans í Bergischer, en Arnór komst ekki á blað. Að lokum skoraði Elvar Örn Jónsson tvö og Arnar Freyr Arnarsson eitt fyrir MT Melsungen er liðið vann sjö marka sigur gegn Stuttgart, 33-26.