Tónlist

„Öllum fannst mjög undarlegt að ég kynni þetta“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Ungstirnið Gugusar, Guðlaug Sóley, var að gefa út plötuna 12:48 og vann plötuna sjálf frá A-Ö.
Ungstirnið Gugusar, Guðlaug Sóley, var að gefa út plötuna 12:48 og vann plötuna sjálf frá A-Ö. Vísir/Vilhelm

Tónlistarkonan Gugusar hefur með sanni átt viðburðaríkt og öflugt ár í tónlistarheiminum en hún hefur vakið mikla athygli fyrir einstakan hljóm sinn og kraftmikla sviðsframkomu. Gugusar, sem heitir réttu nafni Guðlaug Sóley, finnst ekkert skemmtilegra en að semja tónlist en hún var að senda frá sér plötuna 12:48. Blaðamaður hitti á hana í kaffi og fékk að spyrja hana spjörunum úr.

Tala sem var sífellt að koma upp

Platan heitir 12:48 og aðspurð hvort hún eigi einhverja sérstaka tengingu við nafnið segir Gugusar:

„Ég fór alltaf í strætó klukkan 12:48, hann kom alltaf þá þannig að ég var alltaf að bíða eftir að klukkan yrði 12:48. 

Svo var ég einhvern veginn alltaf að horfa óvart á klukkuna þegar hún var 12:48, ég bara sá þessa tölu út um allt. 

Ég var alltaf að fylgjast með þessari tölu og þetta er búið að vera uppáhalds talan mín í dágóðan tíma.“

Því kom ekkert annað til greina en að skíra plötuna eftir þessari tölu en Gugusar segist hafa ákveðið það um leið og hún byrjaði á þessu verkefni. Platan hefur verið í bígerð hjá henni í tvö ár.

„Ég byrjaði sextán ára að semja lögin fyrir hana og var að klára hana núna, átján ára,“ segir ungstirnið en listamannanafn hennar má rekja til notendanafns sem hún skírði sig í tölvuleik átta ára gömul.

„Þegar ég byrjaði í þessum tölvuleik skrifaði ég gugusar sem notandanafn og síðan þá hef ég alltaf notað það sem notandanafn.“

Þá má blaðamaður til með að leiðrétta þá sem ruglast á henni og hljómsveitinni Gusgus, hún kallar sig Gugusar en ekki gusgusgar.

Lengsta giggið hingað til

Það er margt um að vera hjá Gugusar sem undirbýr sig nú fyrir tónleika á Sunset klúbb Edition hótelsins sem haldnir verða næstkomandi laugardagskvöld klukkan 21:00. Þá gefst áhugasömum tækifæri að sjá hana syngja en frítt er inn á meðan húsrúm leyfir. 

„Ég er ótrúlega spennt, þetta er klukkutíma gigg, hálftími og hálftími með smá pásu á milli, og þetta er lengsta gigg sem ég hef tekið hingað til sem er spennandi. Þetta er ótrúlega skemmtilegur staður og ég er mjög til í þetta.“

Gugusar verður með tónleika á Sunset bar Edition hótelsins í Reykjavík næstkomandi laugardagskvöld.Vísir/Vilhelm

Hún segist almennt njóta þess til hins ítrasta að koma fram.

„Ég myndi klárlega segja að eitt af því skemmtilegasta við að vera tónlistarkona sé að fá að flytja tónlistina mína fyrir fólk og það er svo skemmtilegt þegar maður sér að fólkið er að fíla tónlistina sem ég samdi. Það er alltaf svo góð tilfinning og svo gaman þegar fólk er að dansa og syngja og verður partur af showinu.“

Meiddist á skautum og fór að gera tónlist

Tónlistaráhuginn kviknaði snemma hjá Gugusar en hún var þó mikil afrekskona á skautum frá þriggja ára aldri. Hún byrjaði mjög ung að klippa lög fyrir skautakeppnir sjálf.

„Það fannst öllum mjög undarlegt þá að ég kynni þetta en mér fannst þetta bara svo áhugavert sko. Svo meiddist ég á skautum, fór að gera tónlist og þá byrjaði ég að bæði semja og pródúsera, svona í kringum fjórtán ára aldur.“

Hún segist þó hafa verið yngri þegar hún byrjaði að fikra sig áfram í tónlist og semja á píanó og önnur hljóðfæri sem hún fann heima hjá sér.

„Svo færði ég það yfir í tölvu og fór að búa til beats.“

Gugusar, Guðlaug Sóley, byrjaði fjórtán ára gömul að pródúsera sína eigin tónlist.Vísir/Vilhelm

Hún virðist með sanni búa yfir náðargáfu þegar það kemur að lagasmíðum og hefur aldrei stundað nám tengdu því.

„Ég hef aldrei farið í kennslu þegar það kemur að því að pródúsera, ég hef lært allt tengt því að pródúsera á Youtube. Ég fór þó í söngnámi í FÍH í tvö ár og það var gaman. Ég útskrifaðist samt ekki en ég fór aðallega til að fá meira sjálfstraust þegar ég er að syngja.“

Sjálfstraustið mikilvægt í bransanum

Þegar talið berst að sjálfstrausti forvitnast blaðamaður um hvort það þurfi ekki mikið sjálfstraust í tónlistarbransanum.

„Ég held að það þurfi klárlega sjálfstraust til að þora að koma fram á sviði og gefa út tónlist og svona. 

Ég hef alveg strögglað við það einhvern tíma, þegar það koma svona tímabil í lífinu skilurðu þar sem maður er ekki alveg með jafn mikið sjálfstraust og maður var. 

Þá er svolítið erfitt að fara upp á svið og þykjast að það sé allt í góðu lagi og brosa og dansa, þegar það er ekki alveg þannig hjá manni að innan. En ég held að sjálfstraust sé mikilvægt, líka þegar maður er að koma tónlistinni sinni á framfæri.“

Gugusar hlustar alltaf á settið sitt áður en hún stígur á svið.Vísir/Vilhelm

Það er ýmislegt sem getur hjálpað þegar það kemur að því að efla sjálfstraustið og fyrir Gugusar er það aðallega að hlusta alltaf á settið sitt í gegn áður en hún stígur upp á svið. Í leiðinni ímyndar hún sér hvernig hún ætlar að gera hlutina á sviðinu.

„Það hjálpar mér með sjálfstraustið, þá get ég hugsað bara ok ég er alveg með þetta.“

Beint í næsta verkefni

Eins og áður segir hefur nýja platan verið tvö ár í vinnslu og má gera ráð fyrir að dágóður tími hafi farið í gerð hennar. Því voru stór tímamót að gefa hana út og Gugusar segir tilfinninguna mjög góða.

„Nú get ég loksins farið að vinna í nýrri tónlist því ég er búin að eyða mjög miklum tíma og mörgum kvöldum inni í stúdíói að vinna í lögunum aftur og aftur og aftur. Að laga þau, bæta og breyta. Þannig það er rosa gott að þetta sé tilbúið og komið út, núna get ég ekki breytt þeim meira og þá get ég farið í það næsta.

Ég er að vinna að nýrri plötu, ég er komin með fjórtán lög.“

Blaðamaður spyr hana þá hvort hún sé ekki endilega mikið fyrir hvíldina.

„Nei,“ svarar hún brosandi og bætir við: „Að semja tónlist er bara það skemmtilegasta sem ég geri í heiminum og ég reyni að eyða sem mestum tíma í það sem ég get. Það er svo gaman að gera ný lög, svo fer ég alltaf að keyra og hlusta á lögin sem ég var að gera og ég verð svo spennt. Og ég er svo spennt að gera meira efni.“

Gugusar þykir best að fylgja flæðinu en finnst þó skemmtilegast í heimi að geta starfað við tónlist.Vísir/Vilhelm

Litir tónlistarinnar

Gugusar er enn að klára menntaskóla, enda 18 ára gömul, og segir hún að það geti verið svolítið erfitt að púsla öllu saman í viðburðaríku daglegu lífi. Hún stundar nám við Myndlistarskólann og segist mjög þakklát fyrir skilning skólans á tónlistarlífi hennar. Þá blandast myndlistin og tónlistin skemmtilega saman í hennar hugarheimi.

„Ég sé rosa mikið liti þegar ég er að semja tónlist, þá sé ég lögin fyrir mér í ákveðnum litatónum sem er kannski rosa skrýtið, ég veit það ekki. Ég held að myndlistin og tónlistin tengist hjá mér, ég er líka alltaf að hlusta á tónlist þegar ég er að mála þannig það hlýtur að hafa einhver áhrif líka.“

En hvar ætli þessi upprennandi listakona sjái sig fyrir sér í framtíðinni?

„Ég er að fara eftir flæðinu og ég held að það sé bara málið, að sjá bara hvað gerist. En ég væri ótrúlega til í að halda þessu áfram og svo hef ég líka áhuga á arkitektúr.“

Blaðamaður spyr þá hvort erlendi markaðurinn kitli eitthvað.

„Mér finnst líklegt að ég fari að semja eitthvað á ensku, fyrsta platan mín og fyrstu lögin mín voru á ensku. Fyrst að við kunnum fleiri en eitt tungumál megum við þá ekki nota önnur tungumál í textasmíðinni? Ég er allavega mjög opin fyrir því,“ segir Gugusar að lokum.


Tengdar fréttir

„Nú er ég meira að skrifa um persónulega hluti“

Ungstirnið Guðlaug Sóley, jafnan þekkt sem Gugusar, er ein af þeim upprennandi íslensku söngkonum sem koma fram á Iceland Airwaves hátíðinni í ár. Gugusar semur tónlistina sína alla sjálf ásamt því að pródúsera og fær innblásturinn víða. Blaðamaður hitti hana í kaffi og tók á henni púlsinn.

Erfitt en mikilvægt að taka athugasemdum ekki persónulega

Tónlistarkonan Guðlaug Sóley, þekkt undir listamannsnafni sínu Gugusar, skaust upp á stjörnuhimininn fyrir skömmu síðan og hefur spilað víðs vegar um landið. Gugusar elskar beyglur, umkringir sig góðu fólki og endar eiginlega alla daga í stúdíóinu sínu að semja tónlist. Gugusar er viðmælandi vikunnar í Innblæstrinum.

Myndaveisla: Opnun 66°Norður á Hafnartorgi

Fyrirtækið 66°Norður opnaði á dögunum sína elleftu verslun til þessa og er hún staðsett á Hafnartorgi á gamla hafnarsvæðinu. Basalt Arkitektar hönnuðu verslunina og var innblásturinn íslenskt veður og umhverfi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×