Williams var í byrjunarliðinu í fyrsta leik Wales á heimsmeistaramóti í 64 ár og lék fyrstu 79 mínúturnar þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Bandaríkin í B-riðli á HM í Katar.
Kvöldið fyrir leik gegn bandaríska liðinu barst Williams sú harmafregn að afi hans væri látinn. Hann tók hins vegar ekki annað í mál að spila leikinn mikilvæga.
„Í gær fékk ég erfiðustu fréttir sem ég hef fengið þegar mamma mín sagði mér að afi hefði látist kvöldið áður. Að fara frá því að gráta allan daginn yfir í að byrja leik á HM á gríðarlega erfitt en ég komst í gegnum þetta með aðstoð samherja minna og fjölskyldu. Svo ég tileinka afa mínum leikinn og stigið,“ skrifaði Williams á Twitter eftir Bandaríkjaleikinn.
Tilfinningarnar báru hinn 21 árs Williams ofurliði eftir leik og hann gekk grátandi um völlinn á meðan samherjar hans og þjálfarinn Rob Page reyndu að hughreysta hann. Williams fór svo niður á hnén og benti til himins til heiðurs afa síns.
Williams lék sinn 24. landsleik í gær. Bandaríkin voru 1-0 yfir í hálfleik þökk sé marki Timothys Weah en Gareth Bale jafnaði fyrir Wales með marki úr vítaspyrnu átta mínútum fyrir leikslok. Næsti leikur Walesverja á HM er gegn Írönum á föstudaginn.