Enski boltinn

Fyrrverandi dýrasti leikmaður Liverpool látinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Johnson átti mjög góð og sigursæl ár hjá Liverpool.
David Johnson átti mjög góð og sigursæl ár hjá Liverpool. Getty/Peter Robinson/

Liverpool missti einn úr fjölskyldunni í gær. David Johnson, fyrrum leikmaður Liverpool og enska landsliðsins, er látinn eftir glímu við krabbamein. Hann var 71 árs gamall.

Liverpool minntist leikmannsins í gær og það gerðu leikmenn eins og Kenny Dalglish líka. „Sorglega fréttir með Doc. David var mjög vinsæll í klefanum. Virkilega góður gæi og samúðarkveðjur til fjölskyldu hans. Hvíldu í friði Doc. YNWA,“ skrifaði Kenny Dalglish.

Johnson skoraði 78 mörk í 213 leikjum á sex tímabilum sínum á Anfield. Hann skoraði einnig sex mörk í átta landsleikjum fyrir Englendinga.

Everton minntist leikmannsins líka en David Johnson byrjaði feril sinn á Goodison Park og náði meðal annars að skora í nágrannaslagnum á móti Liverpool árið 1971. Níu árum síðar skoraði hann fyrir Liverpool á móti Everton.

Johnson fór frá Everton til Ipswich en Liverpool keypti hann síðan árið 1976 fyrir tvö hundruð þúsund pund. Hann varð þá dýrasti leikmaður félagsins.

Johnson varð þrisvar enskur meistari með Liverpool og varð einnig Evrópumeistari meistaraliða með félaginu árið 1981. Hann missti hins vegar sæti sitt í liðinu þegar Ian Rush skaust upp á stjörnuhimininn.

Johnson endaði á að fara frá Liverpool og semja við Everton árið 1982. Hann spilaði seinna fyrir Barnsley, Manchester City og á endanum sem spilandi stjóri hjá Barrow áður en skórnir fóru upp á hillu árið 1986.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×