Notkun rafhlaupahjóla hefur vaxið hratt undanfarin ár og hefur í raun margfaldast. Borgarbúar eru enn að læra hvernig best sé að notfæra sér þennan nýja ferðamáta en notkun smáfarartækja eins og rafhlaupahjóla er einhver mesta samgöngubylting sem hefur orðið á Íslandi í seinni tíð.
Þetta er á meðal þess sem fram kemur í niðurstöðum könnunnar Gallup á notkun rafhlaupahjóla fyrir Reykjavíkurborg en niðurstöðurnar voru kynntar í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar í gær.
Algengast er að rafhlaupahjól séu notuð í ferðir til og frá skemmtistöðum, börum og veitingahúsum, eða rúm 47 prósent. 96 prósent af þessum ferðum eru farnar á leiguhjólum, 4 prósent á eigin rafhlaupahjóli. Næst algengast er að rafhlaupahjól séu notuð til og frá vinnu eða skóla, eða 42 prósent. Hlutfallslega fleiri nota eigin hjól í þær ferðir eða um 26 prósent eru á eigin rafhlaupahjóli og 74 prósent á leiguhjóli.
Þá kemur einnig fram að rafhlaupahjólaeign er algengari í hverfunum austan Elliðaáa heldur en vestan þeirra eða 21-23 prósent samanborið við 14-15 prósent.
Þá sagðist minnihluti þeirra sem notar rafhlaupahjól hafa lent í óhappi á hjólinu eða 28 prósent en við síðustu könnun var hlutfallið 12,5 prósent. Aðspurð um síðasta skiptið sem viðkomandi lenti í óhappi sögðust 10 prósent þeirra hafa verið undir áhrifum áfengis. Til samanburðar voru um 8 prósent slasaðra eða látinna í umferðarslysum árið 2021 undir áhrifum áfengis eða fíkniefna samkvæmt ársskýrslu Samgöngustofu.