Hörkufrost hefur verið undanfarna daga og er því spáð áfram út vikuna. Á samfélagsmiðlum hafa sprottið upp umræður þar sem fólk segist hafa átt í erfiðleikum með að hita upp híbýli sín og sumir hafa kvartað yfir því að sturtuvatnið nái einungis að verða volgt.
Í samtali við Vísi segir Hrefna að þegar kuldinn er mikill og viðvarandi sé mikilvægt að huga að orkunotkun og fara vel með. Bendir hún á að 90 prósent af heitavatnsnotkun Íslendinga er til húshitunar. Mikilvægt sé að fólk fari yfir stillingar á hitakerfunum heima hjá sér.
„Það þarf að passa upp á að stilla hitastigið ekki óþarflega hátt inni í húsunum okkar. Svo þarf hins vegar að passa upp á að það sé ekki óþörf útloftun. Að við séum ekki að galopna gluggana til að kæla niður þegar við erum búin að hita of mikið.“
Aðspurð segir Hrefna að fólk þurfi ekki að huga að því að spara heita vatnið heima hjá sér. Mikilvægast sé að allir fari vel með orkuna.
„Það hjálpar til dæmis ef að við förum ekki öll út í heitu pottana okkar þegar það er hvað kaldast úti og reynir mest á. En aðallega er það þetta; að nýta sem best, sleppa ekki út varmanum og huga að óþéttum gluggum og hurðum.“