Fótbolti

Pelé óskaði Messi til hamingju: „Diego er brosandi“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lionel Messi hefur nú unnið HM með Argentínu eins og Diego Maradona gerði.
Lionel Messi hefur nú unnið HM með Argentínu eins og Diego Maradona gerði. getty/Matthew Ashton

Pelé fylgdist að sjálfsögðu með úrslitaleik HM í gær þar sem Argentína vann Frakkland eftir vítaspyrnukeppni. Hann sendi Lionel Messi, fyrirliða argentínska liðsins, hamingjuóskir á samfélagsmiðlum í leikslok.

Pelé er jafnan talinn einn besti leikmaður allra tíma en hann varð heimsmeistari í þrígang. Meðal þeirra sem hafa verið nefndir í sömu andrá er Messi sem átti þó alltaf eftir að verða heimsmeistari. En það breyttist í gær.

„Í dag [í gær] heldur fótboltinn áfram að segja sína sögu á hrífandi hátt. Messi vann sinn fyrsta heimsmeistaratitil eins og hann átti skilið. Minn kæri vinur, Kylian Mbappé, skoraði fjögur mörk í úrslitaleiknum,“ skrifaði Pelé á samfélagsmiðla.

„Þvílík gæfa sem það var að horfa á þennan leik með framtíð íþróttarinnar í huga. Og það er ekki annað hægt en að óska Marokkó til hamingju fyrir frábært mót. Það er dásamlegt að sjá Argentínu skína.“

Að lokum kinkaði Pelé svo kolli til Diegos Maradona sem leiddi Argentínumenn til heimsmeistaratitils 1986. Maradona lést fyrir tveimur árum.

„Til hamingju Argentína! Það er klárt að Diego er brosandi,“ skrifaði Pelé sem hefur glímt við erfið veikindi að undanförnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×