Þær voru fjórtán, fálkaorðurnar sem voru veittar á Bessastöðum í dag við hátíðlega athöfn en Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sá að venju um að næla þeim í barm þeirra sem hlotnaðist þessi mikli heiður.
Fólk úr alls kyns geirum var í hópnum en meðal þeirra sem hlutu riddarakross að þessu sinni voru Anna Sigríður Þorvaldsdóttir tónskáld, Arnar Hauksson kvensjúkdómalæknir og Eva Elvira Klonowski réttarmannfræðingur.
Nína Dögg Filippusdóttir, leikkona, fékk riddarakross fyrir framlag sitt til leiklistar og sjónvarps- og kvikmyndagerðar. Hún segir þetta mikinn heiður.
„Þetta er bara mjög góð tilfinning. Þetta er mjög hátíðlegt og ég er bara mjög þakklát fyrir að hafa verið séð, eins og maður segir.“
Héðinn Unnsteinsson fékk riddarakross fyrir störf sín í þágu geðheilbrigðismála og segir að nú um hátíðarnar sé einmitt gott að gefa geðheilsu gaum.
„Þetta eru ánægjulegir tímar, þetta eru tímar samveru en í auknum heimi þar sem eru meiri fjarskipti þá þurfum við að æfa okkur líka í nærverunni. Að vera í kringum fólk og ég held þetta sé einmitt tíminn til þess.“

Ólafur Þ. Harðarson, fyrrverandi prófessor fékk riddarakross fyrir rannsóknir og þekkingarmiðlun á sviði stjórnmálafræði. Ólafur lék einmitt í áramótaskaupinu ígær.
„Já þetta var nú ekki minn fyrsti leiksigur. En hann var mjög góður.“
