Skólinn er nú rústir einar en skotfæri munu einnig hafa verið geymd í kjallara skólans.
Yfirvöld í Rússlandi og á hernumdum svæðum í Úkraínu hafa ekkert sagt um árásina en mikið hefur verið rætt um hana meðal rússneskra herbloggara. Þeir eru mjög virkir í Rússlandi og hafa margir hverjir góða heimildarmenn í rússneska hernum.
Þeir hafa heilt yfir fordæmt atvikið og gagnrýnt leiðtoga hersins alvarlega fyrir að smala svo mörgum hermönnum saman á einn stað. Einnig hefur það verið harðlega gagnrýnt að skotfæri hafi verið geymd á sama stað.
Ekkert virðist hafa verið fjallað um árásina í ríkismiðlum Rússlands. Miðillinn Moscow Times hefur þó fjallað um árásina.
Uppfært 13:30: Fréttaveitan RIA, sem er í eigu rússneska ríkisins, segir minnst 63 hermenn hafa fallið í árásinni. Herbloggararnir í Rybar segja að um sex hundruð hermenn hafi verið í skólanum.
Myndbönd af rústum skólans hafa verið í dreifingu á samfélagsmiðlum.
The Russian base in Makiivka is but dust. HIMARS have delivered absolute carnage. An expected response for the Russian Shahed terror attacks on New Years Eve and the newest reminder that no matter where Russians position themselves, they are not safe. #Ukraine #Donetsk #Makiivka pic.twitter.com/Pfguo4phIK
— (((Tendar))) (@Tendar) January 1, 2023
Úkraínumenn hafa tjáð sig lítillega um árásina og segja allt að fjögur hundruð Rússa hafa fallið í henni og um þrjú hundruð hafi særst. Rússneskir herbloggarar hafa slegið á svipaða strengi og segja að enn sé mikið af líkum í rústum skólans.
Igor Girkin, sem var áður einn af leiðtogum aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu, segir að margra sé saknað. Líklega séu mörg hundruð menn fallnir.
Varnarmálaráðuneyti ríkisins birti myndband af HIMARS-eldflaugakerfi að morgni nýársdags. Með myndbandinu fylgdi textinn „Óvænt ánægja!“ eða „Surprise“.
Surprise! pic.twitter.com/R0gSLvm2LN
— Defense of Ukraine (@DefenceU) January 1, 2023
Útlit er fyrir að um kvaðmenn hafi verið að ræða, það er að segja menn sem skikkaðir hafa verið til herþjónustu, en mennirnir eru sagðir koma frá Saratov-héraði í Rússlandi.
Sérfræðingur sem sérhæfir sig í málefnum rússneska hersins segir að eitt þeirra vandamála sem notkun kvaðmanna feli í sér sé að ekki sé hægt að skipta þeim upp í smærri hópa. Samheldni smærri eininga sé lítil vegna skorts á leiðtogum og þjálfun.