Veiði

Þær eru bestar léttklæddar

Karl Lúðvíksson skrifar
Léttklædd Blue Charm
Léttklædd Blue Charm

Nú sitja veiðimenn og veiðikonur yfir fjöðrum, krókum og öðru því sem þarf til að hnýta flugur fyrir veiðisumarið 2023.

Það er ótrúlega gaman að sitja og hnýta sínar eigin flugur, prófa nýjar aðferðir og kasta þeim síðan fyrir lax og silung. Að setja í fisk á sína eigin flugu gefur mikla ánægju og það ættu allir að eiga grunnsett til að hnýta í það minnsta nokkrar í boxið á hverju ári.

Eitt af því sem undirritaður hefur lært af bráðum fjörtíu ára veiðireynslu er að sumar flugur, og þá sérstaklega sumar laxaflugur, veiða betur þegar þær er létt klæddar sem þýðir að þær eru hnýttar með minna efni en kannski venja er að gera. Veiðimeistarinn Ásgeir Heiðar kenndi mér þetta fyrir mörgum árum og það er ekki annað hægt að segja en að þetta virki vel. Það sem kannski gerir léttklæddar flugur veiðnari við ákveðnar aðstæður er að þær fara hraðar í gegnum yfirborðið og veiða þess vegna fyrr á réttu dýpi.

Nú kann þetta að hljóma einkennilega þegar veiðimenn eru oft að nota hitch þar sem lax tekur flugurnar þegar þær fljóta á yfirborðinu, en þegar hann vill ekki taka hitch vill laxinn fá flugurnar aðeins neðar í vatnið. Það er stundum sagt að við þessar aðstæður sé hann latur í töku og það sé næstum því eins og það þurfi að mata hann. 

Nokkrar flugur sem er klárlega vert að nefna að prófa að hnýta léttklæddar má nefna Black and Blue, Collie dog, Green Brahan og Blue Charm. Prófaðu þína úppáhaldsflugu léttklædda við bakkann næsta sumar, það gæti verið líklegt til árangurs.






×