Fótbolti

Real Madrid komið í úrslitaleikinn

Smári Jökull Jónsson skrifar
Vinicius Jr. fagnar marki sínu fyrir Real Madrid í kvöld.
Vinicius Jr. fagnar marki sínu fyrir Real Madrid í kvöld. Vísir/Getty

Real Madrid er komið í úrslit heimsmeistarakeppni félagsliða eftir 3-1 sigur á Al Ahly í kvöld en leikurinn fór fram í Rabat í Marokkó.

Real Madrid tryggði sér þátttökurétt í keppninni með því að vinna sigur í Meistaradeild Evrópu í fyrra en liðið lagði þá Liverpool 1-0 í úrslitaleik eftir mark Vinicius Jr. Al Ahly hafði þegar leikið tvo leiki í keppninni, gegn nýsjálenska liðinu Auckland og svo Seattle Sounders og með sigrum í báðum leikjunum tryggt sér sæti í undanúrslitum.

Leikurinn var rólegur til að byrja með og áttu bæði lið marktilraunir. Real Madrid kom sér hins vegar í lykilstöðu með mörkum sitt hvoru megin við hálfleikinn. Fyrst skoraði Vinicius Jr. á þremur mínútum fyrir leikhlé og Federico Valverde kom Real í 2-0 á fyrstu mínútu síðari hálfleiks.

Al Ahly gafst þó ekki upp og minnkaði muninn á 65.mínútu þegar Ali Maâloul skoraði úr vítaspyrnu. Al Ahly komst þó ekki lengra. Luka Modric misnotaði vítaspyrnu fyrir Real skömmu fyrir leikslok en á þriðju mínútu uppbótartíma skoraði Rodrygo þriðja mark Real og gulltryggði sigurinn.

Real er því komið í úrslitaleik keppninnar þar sem það mætir liði Al Hilal frá Sádi Arabíu en þeir lögðu Flamengo í undanúrslitaleik í gær.

Úrslitaleikurinn fer fram á laugardag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×