Fótbolti

Ofurvaramaðurinn skoraði í þriðja leiknum í röð

Smári Jökull Jónsson skrifar
Manor Solomon skoraði í þriðja leiknum í röð fyrir Fulham.
Manor Solomon skoraði í þriðja leiknum í röð fyrir Fulham. Vísir/Getty

Fulham og Wolves gerðu jafntefli í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Úlfarnir komust yfir í fyrri hálfleik en heimaliðinu tókst að jafna í þeim síðari og gat stolið sigrinum undir lokin.

Fulham hefur átt góðu gengi að fagna hingað til á tímabilinu og var í sjötta sæti fyrir leikinn. Úlfarnir hafa hins vegar verið í vandræðum og eru í baráttu í neðri hlutanum.

Það var þó ekki að sjá að níu sætum munaði á liðunum í fyrri hálfleik. Úlfarnir voru mun sterkari aðilinn og voru verðskuldað 1-0 yfir í hálfleik eftir mark Pablo Sarabia á 23.mínútu leiksins.

Í upphafi síðari hálfleiks misstu Úlfarnir Matheus Cunha af velli og fengu síðan á sig jöfnunarmark á 64.mínútu þegar varamaðurinn Manor Solomon skoraði í þriðja úrvalsdeildarleiknum í röð en í öll skipti hefur hann komið inn af bekknum.

Leikurinn var í járnum eftir þetta en undir lokin gat Fulham stolið sigrinum en Jose Sa varði glæsilega skalla Vinicius í uppbótartíma.

Niðurstaðan 1-1 jafntefli en staða liðanna breyttist ekkert við þessi úrslit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×