Handbolti

Stórleikur Viggós í sigri á Magdeburg

Smári Jökull Jónsson skrifar
Viggó Kristjánsson var frábær í dag
Viggó Kristjánsson var frábær í dag Getty/Tom Weller

Leipzig vann góðan sigur á Magdeburg í þýska handboltanum í dag. Magdeburg tapar því mikilvægum stigum í toppbaráttunni.

Magdeburg var í heimsókn hjá Leipzig þar sem Rúnar Sigtryggsson er við stjórnvölinn en Viggó Kristjánsson leikur með liðinu.

Magdeburg er í toppbaráttu þýsku deildarinnar en Leipzig sat í 10.sæti fyrir leikinn en liðið hefur flogið upp töfluna eftir að Rúnar tók við stjórn liðsins.

Leipzig tók frumkvæðið í byrjun en eftir að Magdeburg jafnaði í 6-6 eftir tíu mínútur var leikurinn hnífjafn. Magdeburg leiddi 16-15 í hálfleik og síðari hálfleikur byrjaði á svipaðan hátt og sá fyrri endaði.

Í stöðunni 21-21 skoraði Leipzig þrjú mörk í röð og komst í 24-21 með tuttugu mínútur eftir af leiknum. Magdeburg gekk illa að minnka muninn og tóku leikhlé með rúmar átta mínútur eftir í stöðunni 31-27 fyrir Leipzig.

Þeim tókst mest að minnka muninn í eitt mark og það varð munurinn á liðunum í lok leiks, lokatölur 33-32 fyrir Leipzig og Magdeburg verður því af mikilvægum stigum í toppbaráttunni.

Viggó Kristjánsson átti stórleik fyrir Leipzig í dag. Hann skoraði tíu mörk og gaf fjórar stoðsendingar. Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði sex mörk fyrir Magdeburg og gaf fimm stoðsendingar.

Arnór Þór Gunnarsson lék með Bergisher í leik liðsins gegn Stuttgart í dag. Leikurinn var jafn en Bergisher yfir leitt skrefinu á undan og leiddi 15-13 í hálfleik.

Síðari hálfleikur var æsispennandi. Stuttgart náði yfirhöndinni á tímabili en Bergisher jafnaði og þegar fimm mínútur voru eftir var staðan 25-25.

Eftir það var hins vegar aðeins eitt mark skorað. Það gerðu gestirnir og Stuttgart fagnaði því 26-25 sigri. Arnór Þór komst ekki á blað hjá Bergischer.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×